138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því sem hv. þingmaður sagði hér og ég hvet ykkur til að lesa þennan lista í nefndaráliti frá meiri hluta allsherjarnefndar. Svo skuluð þið sem lesið þetta segja okkur frá því hvort heilbrigðisstéttirnar séu þarna. Heilbrigðisstéttir eru ef ég man rétt, rúmlega 30. Heilbrigðisstéttir og heilbrigðisstofnanir eru ekki það sama, virðulegi forseti. (VBj: 33.) Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir þekkir þetta mætavel, þær eru 33. (Gripið fram í: Er annað fólk sem vinnur ...) Virðulegi forseti. Ég vil ekki vera að kenna hv. þingmanni og formanni allsherjarnefndar neitt, af því að ég veit að hann hefur yfirburðaþekkingu á mjög mörgu, en ég legg til að hann setjist niður með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur og ég veit að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir getur sett hv. þm. Róbert Marshall inn í það hvað eru heilbrigðisstéttir. Ég gerði nú ekki meira, ég setti mig bara aðeins inn í hvað eru heilbrigðisstéttir ... (Gripið fram í.) Ja, augljóslega veit ég þetta betur en hv. þingmaður, en ég hringdi í Læknafélagið og Félag hjúkrunarfræðinga vegna þess að ég skildi ekki af hverju engar umsagnir voru frá þeim. Þar var ég upplýstur um að þau hefðu ekki fengið neitt um málið. Svo hringdi ég í Öryrkjabandalagið, þar höfðu menn ekki fengið þetta til umsagnar. Það er allt annað en þessar stofnanir. (Gripið fram í.) Það er allt annað en þessar heilbrigðisstofnanir. Þegar við erum að ræða heilbrigðismál eða félagsmál finnst okkur skynsamlegt að fá sjónarmið þessara aðila, vegna þess að þetta eru þeir sem þekkja hvað best til. Ég veit að hv. þm. Ólafur Gunnarsson getur sett hv. þm. Róbert Marshall inn í þetta líka. Þetta er kannski allt einn stór misskilningur og væri bara gott að þeir (Gripið fram í.) sem vel þekkja til innan stjórnarliðsins færu yfir þetta með þeim sem kannski hafa ekki sett sig jafn vel inn í þetta.