138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins nefna það, af því að nú stefnir í að þessari umræðu sé að ljúka, að kjarninn í gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á þetta frumvarp lýtur ekki að því að það sé verið að sameina ráðuneyti eða þeirri meginhugmynd að sameina beri ráðuneyti, eins og ráða mátti af orðum hv. þm. Önnu Margrétar Guðjónsdóttur áðan. Við erum ekki ósammála þeirri meginstefnu. Það var það sem hv. þingmaður vitnaði í þegar hún var að vitna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu starfshóps forsætisráðherra frá því í vor. Við erum ekki ósammála því. Við erum ekki að gagnrýna það. Það sem við gagnrýnum er að ráðist skuli í þetta verkefni, þennan frumvarpsflutning núna án þess að vinna þá undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er til þess að slík sameining eða slíkar breytingar séu líklegar til að skila árangri. Við höfum farið yfir það í þessari umræðu og tilgreint hvað séu eðlileg viðmið í því sambandi. Við höfum vísað í það að ríkisstjórnin sjálf hefur sett sér ákveðin viðmið í því sambandi. Það hefur verið samstaða um ákveðnar leiðbeiningarreglur sem forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og skrifstofa Alþingis gáfu út árið 2007 þar sem er að finna útfærðar hugmyndir eða útfærðar tillögur um það hvernig á að standa að málum af þessu tagi. Þær hugmyndir sem þar koma fram eða tillögur, leiðbeiningar, hafa ekki verið pólitískt umdeildar og eru ekki pólitískt bitbein. Menn hafa verið sammála um að þetta væru góð vinnubrögð. Það sem við höfum bent á er að frumvarpið stenst engar af þessum kröfum. Það er einfaldlega þessi gagnrýni sem við höfum haldið á lofti sem hefur gert það að verkum að við höfum vakið athygli á vanköntum þessa máls. Það er einfaldlega þetta sem gerir það að verkum að við teljum langeðlilegast að ríkisstjórnin taki þetta mál aftur til sín.

Meiri hlutinn á þingi virðist hins vegar hafa náð saman um að lenda þessu máli og lætur sér í léttu rúmi liggja þó að hinum fögru fyrirheitum um vönduð vinnubrögð, faglega stjórnsýslu, lýðræðislegt samráð og hvað þetta allt heitir sé ekki fylgt í praxís. Meiri hlutinn á Alþingi lætur sér það í réttu rúmi liggja, það er ákvörðun þess meiri hluta og hann gerir það upp við sig og axlar á því pólitíska ábyrgð. En meiri hlutinn getur ekki kveinkað sér undan því að við vekjum athygli á þessu. Meiri hlutinn getur ekki kveinkað sér undan því þó að hér eigi sér stað nokkur umræða á þessum forsendum, vegna þess að hluti af verkefnum okkar á þingi felst einmitt í því að leggja mat á lagafrumvörp, ræða þau, ekki bara út frá pólitískri meginstefnu heldur líka út frá gæðum. Við eigum að leggja gott til málanna að því leyti. Við eigum að benda á vankanta. Við eigum að hafna óvönduðum frumvörpum, eða það hefði ég haldið. Menn geta verið sammála um markmið þó að menn telji að vinnan sem liggur að baki útfærslunni sé ýmist engin eða ekki nægilega góð. Það er tvennt ólíkt og við megum ekki rugla því saman.

Í þessari umræðu hefur málflutningur stjórnarliða að svo miklu leyti sem hann hefur komið fram í þinginu engu bætt við og engu svarað þeim gagnrýnisatriðum sem við höfum komið fram með á þessu sviði. Engu hefur verið svarað í þeim efnum.

Ég nefndi áðan að kallað hefði verið eftir því að við legðum fram okkar útfærðu hugmyndir í þessum efnum. Við getum slengt fram alls konar hugmyndum eins og ég nefndi áðan. Við getum slengt fram alls konar fullyrðingum um að það hljóti að nást sparnaður með því að gera hitt og þetta. Við höfum hins vegar ekki forsendur til þess að rökstyðja slíkar tillögur. Það sem við köllum eftir er að ríkisstjórnin, ráðuneytin sem ættu að hafa yfir að ráða bolmagni, sérfræðingum og krafti, peningum til að láta vinna slíka vinnu fyrir sig, það sem við erum að kalla eftir er að ríkisstjórnin geri þetta, vinni heimavinnuna áður en málið kemur inn í þingið. Sú gagnrýni af okkar hálfu stendur. Meiri hlutinn kýs að hafa hana að engu. Það verður svo að vera. Það er hins vegar fremur ómaklegt (Forseti hringir.) að stjórnarandstaðan þurfi að sæta því að vera með einhverjum hætti gerð ábyrg fyrir málsmeðferðinni í þessum efnum þegar legið hefur ljóst fyrir frá upphafi að við höfum talið að senda ætti málið (Forseti hringir.) aftur heim til flutningsmanna og forgöngumanna frumvarpsins og láta vinna það áður en það kæmi hingað inn.