138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður fór yfir og dró saman mjög vel nokkur þeirra atriða sem ég ætlaði að gera að umtalsefni í ræðu minni, einmitt hvaða málflutning við sjálfstæðismenn höfum haft uppi í þessari umræðu og þær athugasemdir sem við höfum gert við þetta frumvarp. Ég ætla ekki að endurtaka það, þingmaðurinn fór vel yfir það, en þetta lýtur m.a. að skorti á samráði og vinnubrögðum sem við gerum alvarlegar athugasemdir við. Ég sakna þess að sjá ekki hv. formann allsherjarnefndar hér — hann er væntanlega niðri í þingflokksherbergi hjá Samfylkingunni að horfa á þessa ræðu þannig að ég treysti því að það fari ekkert fram hjá honum — vegna þess að ég vil gera athugasemd við ræðu hans áðan í andsvari við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson þar sem hann sýndi, að mér fannst, yfirgengilega mikinn hroka í garð þingmannsins og allt að því hæddist að honum. Umræddur þingmaður getur alveg svarað fyrir sig sjálfur, ég ætla ekki að fara að taka það að mér.

En ég vil gera athugasemdir við þetta vegna þess að í framhaldi af því sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan þá er það hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að benda á það sem okkur þykir athugavert við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Það er hlutverk okkar hér. Við tökum það hlutverk mjög alvarlega. Og þegar við gerum það þá koma, eins og hæstv. utanríkisráðherra hagaði sér í andsvari, m.a. við þá sem hér stendur, ekkert nema útúrsnúningar og það helsta sem hæstv. ráðherra kom með sér til málsvarnar vegna gagnrýni á skort á samráði var: „Þetta var miklu betra heldur en þið gerðuð það, manstu ekki hvernig þetta var? Þetta var miklu verra hjá ykkur.“ Hann var eins og lítill götustrákur, hæstv. ráðherrann.

Það er algjörlega með ólíkindum að þegar ríkisstjórnin er komin út í horn og henni er bent á að svona eru hlutirnir ekki gerðir, kemur alltaf: „Já, en þið gerðuð þetta miklu verr.“ Fyrirgefið, var ekki ætlunin hjá þessu fólki að bjóða sig fram til þess að viðhafa önnur vinnubrögð, snerist þetta ekki allt um að það átti að gera hlutina betur en áður var? Ég hélt að það hefði verið það sem stóð hér upp úr hverjum einasta stjórnarþingmanni. Í frumvarpinu segir að sumarið hafi átt að nýta til samráðs. Við höfum farið vel yfir það hér að svo var ekki gert.

Það er annað sem ég vildi líka gera athugasemdir við vegna þess að bæði hæstv. ráðherra og hv. formaður allsherjarnefndar hafa gert mikið úr því að nú séu sjálfstæðismenn komnir í málþóf, stóra málþófið um Stjórnarráðið. Ég mótmælti því harðlega í ræðu fyrr í dag og ætla að gera það aftur. Í millitíðinni aflaði ég mér upplýsinga um hversu lengi þetta málþóf hefði staðið. Það er þannig að í umræðu um frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands, 1. og 2. umr. sem af er, hefur samtals farið heill vinnudagur opinbers starfsmanns og rúmlega það, átta klukkustundir og fimm mínútur í 1. og 2. umr. Þetta er nú allt málþófið. Hvernig geta menn reynt að halda því fram að verið sé að tefja mál, þæfa mál, þegar ríkisstjórnin kemur með illa undirbúið, algjörlega ófullburða mál inn í þingið þar sem það er tekið út úr nefnd í ósætti og er ekki klárað? Það hlýtur að vera lýðræðisleg krafa okkar í stjórnarandstöðunni að okkur sé alla vega sýndur sá sómi að ekki sé farið að kalla málefnalega gagnrýni málþóf, 2. umr. hefur staðið í fjórar klukkustundir og 45 mínútur. Þetta er nú allt málþófið.

Þess vegna vildi ég koma hér og biðja menn um að líta aðeins á þessar staðreyndir. Ég vil þakka fyrir eitt, og ég vona að það sé kannski fyrirboði um það sem koma skal, ég vil þakka fyrir það að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fór í andsvar áðan og tilkynnti að á fundi allsherjarnefndar í hádeginu hafi sú beiðni verið tekin fyrir sem gerð hefur verið hér að umtalsefni, að málið verði tekið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. og það sent til umsagnar annarra nefnda þingsins. Ég þakka fyrir það. Mér finnst það skref í rétta átt.

Ég vil biðja menn um að verða ekki svona viðskotaillir þegar kemur að því að svara fyrir vinnubrögð sem við erum að gagnrýna og koma frekar með svörin. Koma með svörin við því af hverju ekki var beðið um umsögn frá Læknafélaginu, af hverju ekki voru kallaðir til gestir. Hæstv. utanríkisráðherra var með svarið við því. Hann sagði að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki haft rænu á því. Mjög smart, mjög smekklegt af hæstv. utanríkisráðherra að taka svona til orða. Hvar var formaður nefndarinnar? Hver eru vinnubrögðin venjulega í svona máli? Í öllum þeim nefndum þingsins sem ég hef unnið hefur það bara verið viðtekið, án þess að menn hafi þurft að taka um það sérstaka umræðu og halda um það langar ræður, að kallaðir eru til gestir. Að ég tali nú ekki um mál þar sem í frumvarpinu stendur að sumarið verði nýtt til samráðs. Það hefði ég haldið og að á nefndadögum hefði tíminn verið notaður til þess að kalla eftir sjónarmiðum þeirra. Ég benti á það í fyrri ræðu minni að fjöldamargar umsagnir, og ég las m.a. upp úr umsögn frá Landssambandi lögreglumanna, enda á þeim orðum að viðkomandi einstaklingur, stofnun eða félag sem skilar inn umsögn óski eftir því að koma á framfæri frekari athugasemdum og áskilji sér rétt til þess. Síðan er málið bara tekið út í ósætti, ófullbúið, og engum gefst tækifæri á að koma með frekari athugasemdir, vegna þess að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu væntanlega ekki rænu á að kalla eftir því.

Það sjá allir að svona vinnur maður ekki. Það er eflaust vegna þess að stjórnarliðar vita upp á sig sökina, sjá að þetta eru ekki vinnubrögð til fyrirmyndar. Þess vegna bregðast þeir svona við. Það er þess vegna sem þeir eru svona viðskotaillir. Það er þess vegna sem þeir nota tækifærið og koma í andsvar og hæðast að fólki. Ég get ekki séð neina aðra ástæðu fyrir þessu framferði.

Ég tek undir það sem fram kemur í minnihlutaáliti okkar sjálfstæðismanna að málið er vanbúið. Þetta mál er ekki tilbúið. Það er illa unnið og við gerum þá kröfu að það verði betur unnið og menn læri af reynslunni og vandi betur til verka. Það er okkur öllum í hag. Ég lýsi sjálfstæðismenn, hvort sem það er í allsherjarnefnd eða í þingsalnum, reiðubúna til að leggja því máli lið, vegna þess að eins og við höfum ítrekað í þessari umræðu, öll sem höfum tekið þátt í henni af hálfu Sjálfstæðisflokksins: Við erum ekki á móti breytingum á Stjórnarráðinu. Margt má betur fara þar og það er margt sem við getum öll lagst á um að gera úrbætur á. En gerum það þá þannig, byrjum ekki á öfugum enda eins og í þessu máli og svo mörgum öðrum. Það sem raunverulegt samráð þýðir er að menn hafi samráð áður en hlutirnir eru komnir út í ógöngur. Það hefur ekki verið gert.