138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skildi ekki alveg þetta með skilaboðin úr nefndinni. Misskildi ég að allsherjarnefnd hefði ákveðið að senda málið til frekari umsagna? Ég vona að ég hafi ekki verið að því vegna þess að það var það sem ég var að fjalla um í minni ræðu. (VBj: Það var ekki misskilningur.) Það er ekki misskilningur, gott.

Ég ætlaði mér ekki að vera með einhverja kennslustund hérna en mér ofbauð og hefur ofboðið í þessari umræðu hvernig þeirri gagnrýni sem við höfum sett fram hefur verið tekið af hálfu stjórnarliða. Henni hefur verið svarað með því sem mér finnst vera skætingur. Það er rétt sem þingmaðurinn segir, það er hægt að lýsa hlutunum á tvo vegu, glasið er hálffullt eða hálftómt, annaðhvort er málið tekið út úr nefnd í ósætti eða afl atkvæða ræður og meiri hlutinn ræður. Menn geta alveg sett þetta fram með mismunandi hætti.

Það sem við gerum mestu athugasemdina við er að þetta mál er ekki búið. Vinnunni er ekki lokið. Þess vegna vona ég sannarlega að nefndin taki sér tíma núna og klári þetta. Það er einfaldlega rangt að halda því fram að við höfum verið hér í einhverri tafapólitík. Eins og ég sagði áðan hafði þessi umræða staðið yfir í fjórar klukkustundir og 45 mínútur áður en ég flutti mína ræðu. Um tafapólitík er því ekki að ræða.

Varnarmálastofnun var hér nefnd á nafn. Ég get ekki tekið undir það með þingmanninum að núna sé hún í betri málum vegna þess að það er búið að breyta heiti samgöngu- og dómsmálaráðuneytisins í innanríkisráðuneyti. Ég hef alltaf gagnrýnt þá framkvæmd með því að mér hefði þótt eðlilegast að byrja á því að stofna ráðuneytið og ákveða síðan hvaða verkefni ættu heima hvar en það var ekki gert og það að búið sé að breyta heitinu á þessu ráðuneyti breytir ekki þeirri skoðun minni.