138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja hér en vil bara lýsa því að ef Sjálfstæðisflokkurinn réði, ef hlustað væri á Sjálfstæðisflokkinn þar sem hann er í stjórnarandstöðu og í þeim málum sem hann leggur hér eitthvað til, gerðist ekki neitt vegna þess að það er alltaf vitlaus tími. Þau eru svo sem sammála öllum góðum efnum. Jú, það á að sameina, það á bara ekki að gera það núna. Það á ekki að gera það í þessari röð. Ég tel það ekki heppilegt núna. Þetta er svarið sem kemur alltaf frá sjálfstæðismönnum. Síðan tala þau um ósætti og allir eru vondir við þau.

Ég verð bara að segja, hæstv. forseti, að ef það eru ekki tafir að endurtaka hér aftur og aftur sömu ræðurnar, það kemur ekkert nýtt fram í neinni ræðu sem hér er flutt, veit ég ekki hvað tafir eru. Mér dettur ekki í hug að kalla þetta málþóf, kannski er fólk bara vant að vinna svona eftir að hafa verið mjög lengi á Alþingi og þá sýnist mér betra að skipta oftar. Þessi vinnubrögð hjálpa engum.