138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt í einu fékk ég svona —hvað heitir það? — déjà vu. Mér fannst ég stödd í Icesave-umræðu. Það hefur ekkert nýtt komið fram í allri umræðunni, heyrðum við allt seinasta sumar. Við vitum hvernig það mál hefur þróast síðan, endalaust verið að koma fram — (VBj: Þjóðinni til mikillar gæfu.) þjóðinni til mikillar gæfu, já, eins og var tekist á um hér í þessum (Gripið fram í.) stól fyrr í dag. (Gripið fram í.) Menn eru ekki sammála um það. Ég er algjörlega sannfærð um það og veit að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sem tók hér til máls fyrr í dag er mér sammála um það.

Ég ætla að gera athugasemd við eitt, þingmaðurinn veit ekki hvað hún á að kalla þetta annað en tafir þegar menn koma — og ég nefni aftur tímalengdina, fjórar klukkustundir og 45 mínútur, og ég tek fram að það eru ekki allt saman sjálfstæðismenn, nokkrir stjórnarliðar hafa tekið þátt í þessari umræðu. Þingmaðurinn kvartar undan því að hér sé verið að flytja sömu ræðurnar aftur og aftur. Ég ætla að benda hv. þingmanni á að þetta er það sem kallast lýðræði, það eru skoðanaskipti. Ef við vildum (Gripið fram í.) að allt rynni hér í gegn án þess að um það yrði talað, án þess að ég fengi að segja það sem mér fyndist, jafnvel þótt einhverjum öðrum hefði orðið á að segja það áður — erum við ekki komin út á dálítið hála braut?

Ég er ekki að kvarta yfir því að allir séu vondir við Sjálfstæðisflokkinn. Ég held að ríkisstjórnin sem kennir núna stjórnarandstöðunni um allt sem miður fer vegna þess að hún sjálf kemur ekki neinum málum í gegn ætti að líta í eigin barm. Ef það væri meiri hluti á þingi fyrir öllum þeim hlutum sem hún vill gera, ef það væri bara afl atkvæðanna sem réði, mundi stjórnarandstaðan þá hafa eitthvert afl til að þvælast fyrir? Nei, hún mundi ekki gera það. Hæstv. utanríkisráðherra kvartaði yfir þingflokki Sjálfstæðisflokksins undir minni stjórn. Ætli honum svíði ekki bara dálítið undan því að það sé verið að takast hérna aðeins á um mál, að hann sé farinn að (Forseti hringir.) þurfa að svara fyrir þau? Ég held að það sé pirringurinn.