138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:35]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þau svör sem þó komu. Þau voru kannski ekki efnismikil enda liggur það fyrir að hv. þingmaður er ekki endilega með hugmyndir um það fyrir fram hvað geti komið af athugasemdum eða áhyggjum. Ég held raunar að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur hvað varðar heilbrigðisstéttirnar. Ég tel að megininntak þeirrar stjórnsýslu sem snýr að heilbrigðisþjónustunni muni ekki í neinum grundvallaratriðum breytast. Ég hef heyrt það úti í samfélaginu, ég hef heyrt það á vettvangi, að heilbrigðisstéttirnar hafa ekki, alla vega eftir því sem ég hef heyrt utan að mér, af þessu stórar áhyggjur. Í rauninni held ég að menn taki þessu verkefni fagnandi.

Þegar menn eru að tala um það, eins og hv. þingmaður, að verið sé að búa til þvílíkt bákn og stórt kerfi er það rétt hjá honum að íslenska heilbrigðiskerfið eða velferðarkerfið er ekki sambærilegt við það sem gerist úti í heimi. Það er alveg hárrétt. En við skulum líka muna að á Íslandi eru miklu færri stofnanir, þ.e. miklu færri stórar stofnanir sem sinna heilbrigðisþjónustu. Við erum með eitt almannatryggingakerfi. Þannig að yfirsýnin yfir þetta mál, yfirsýnin yfir þessa málaflokka, er að mörgu leyti miklu einfaldari í íslensku kerfi en víða gerist erlendis. Ég held því enn aftur að þessar áhyggjur séu ekki nauðsynlegar. Ég virði þessar áhyggjur en ég held að þær séu ekki nauðsynlegar. Ég held hins vegar að tekið verði á þessum þáttum þegar sameiningarferli ráðuneytanna fer af stað. Ég held að það sé fagnaðarefni að geta komið því máli áleiðis og komið því í höfn.