138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að halda langa ræðu en af því að mikið hefur verið rætt um bókun sem ég ásamt öðrum þingmanni og ráðherra Vinstri grænna setti fram, bæði í þingflokki VG við afgreiðslu þessa máls og líka hér í þinginu við 1. umr., langar mig að fara aðeins yfir þá bókun og á hvaða forsendum hún var gerð.

Þessi bókun var gerð í þingflokki VG þegar frumvarpið kom þangað inn. Það var mat margra þar að frumvarpið væri ekki fullbúið eins og það kæmi fram, menn hefðu ekki séð það — eða það kom réttara sagt fullbúið inn í þingflokkinn og menn, eins og til að mynda hv. þm. Atli Gíslason bentu á að vinnulagið við gerð frumvarpsins væri ekki eins og VG hefur lagt upp með hvað varðar svona mál. Í þessari bókun er fyrsti liðurinn, með leyfi frú forseta:

„Samning frumvarpsins og framlagning er í andstöðu við reglur samkvæmt reglu samkvæmt handbók forsætisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytis og skrifstofu Alþingis um undirbúning og frágang lagafrumvarpa frá því í nóvember 2007.“

Þar vitnaði hv. þm. Atli Gíslason líka í ræður sínar og fleiri við stjórnarráðsbreytingar haustið 2007, eftirásamráð, þarfagreiningu og fleira sem skorti upp á við afgreiðslu frumvarpsins.

Nú hefur verið mikill skæruliðahernaður hér í þingsal í þessu máli. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir að breyta ekki um vinnubrögð. Þingmenn núverandi meiri hluta gagnrýna hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að þeir hafi stundað sömu vinnubrögð við afgreiðslu stjórnarbreytinga 2007.

Nú er það svo að rannsóknarnefnd Alþingis fjallaði m.a. um starfshætti Alþingis, löggjafarþingið og framkvæmdarvaldið, og hve mikilvægt væri að skilja meira á milli starfsemi löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins hvað varðar vinnubrögðin og það hvernig svona mál verða til. Mín skoðun er sú að meðan það er bundið í lög eigi það að vera á þverpólitískum grunni sem breytingar á stjórnarráðinu eru framkvæmdar. Ríkisstjórnir koma og fara og ráðuneytum er ekki breytt og þau stokkuð upp á hverju ári því að slíkt krefst mikils undirbúnings og slíkt er í töluverðan tíma að ná að byrja að virka eðlilega. Það er enginn mótfallinn því að ná fram hagræðingu í stjórnsýslunni, síður en svo, þó að menn bendi á að hugsanlega þurfi önnur vinnubrögð í þessum efnum.

Ég veit að hv. þm. Atli Gíslason, sem lagði fram þessa bókun, er þessa dagana ásamt fleiri þingmönnum mjög upptekinn í þingmannanefnd sem á að skila af sér í næstu viku. Ég veit að skoðun hans og okkar sem fluttum þessa bókun hvað varðar vinnulag í málum af þessu tagi hefur ekki veikst og frekar styrkst. Ég hef samt áhyggjur af því, miðað við umræðurnar hér á þinginu, að ekki sé raunverulegur vilji til slíks.

Ég fagna því þó að formaður allsherjarnefndar hafi í umræðunum í dag talað fyrir því og sagt að þessu verði vísað til undirnefnda því að þess var óskað hér við umræðuna. Við lögðum það til, hv. þm. Atli Gíslason, sá sem hér stendur og sjávarútvegsráðherra, og reyndar töluðu fleiri í þá átt, að eðlilegast væri að skipa vinnuhóp til að fara yfir Stjórnarráðið og skila frumvarpsdrögum og láta það verða til hér á þinginu eða til hliðar við þingið, koma með fullbúið frumvarp hér inn á haustþingið. Það var það sem við lögðum til og það kom fram við 1. umr. málsins.

Ég fagna því að málið fari aftur til nefndarinnar og hvet nefndarmenn alla til að leita þar umsagna, vísa málinu til annarra fastanefnda. Það er alveg rétt að menn hafa bent hér á kosti þess að búa til eitt stórt velferðarráðuneyti. Ég hef ekki dregið það í efa. Ég hef hins vegar ekki mjög djúpa og mikla þekkingu á því máli. Ég hafði sterkari skoðanir á þessu er varðar atvinnuvegaráðuneytið. Það komu upp hugmyndir varðandi matvælaráðuneyti, hugsanlega væri það skynsamlegra eða annað því um líkt. Ég hafði sterkari skoðanir á því og er með betri tengingu inni í þær atvinnugreinar og inn í þá starfsemi sem það ráðuneyti hefur.

Það breytti því hins vegar ekki að varðandi velferðarráðuneytið er mjög mikilvægt að haft sé fullt samráð við alla sem þar eru að baki. Þetta er gríðarlega stórt ráðuneyti. Það er með yfir helming af öllum fjárútlátum. Ég frábið mér það að menn séu sakaðir um það hér að þó þeir hafi lagt fram bókun sem þessa, eða hafi slegið einhvern varnagla við því hvernig svona sé gert, sé dregin upp sú mynd að menn séu alfarið á móti hagræðingu innan stjórnsýslunnar. Ég frábið mér slíkan málflutning og ég vil sjá þetta mál þróast áfram og unnið áfram í fullri sátt og að leitað verði umsagna og leitað verði til allra viðeigandi hagsmunaaðila varðandi framhaldið.