138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Svo maður játi bara á sig syndir var ég í þeim stjórnarmeirihluta sem samþykkti stjórnkerfisbreytingarnar 2007. Það er mín skoðun að við hefðum þá átt að vanda betur til verka. Ég get alveg farið yfir það ef menn hafa áhuga á því.

Hv. þingmaður fór mjög heiðarlega yfir málið, hann þekkir ákveðna málaflokka betur en aðrir og þannig er það bara. Mér sýnist að þeir sem þekktu vel til í atvinnuvegaráðuneytunum hafi komið sjónarmiðum sínum áleiðis en umræðan um velferðarmálin hafi verið miklu minni. Hv. þingmaður sagði eins og var, sem var mjög eðlilegt og heiðarlegt, að hann væri bara ekki búinn að skoða nógu vel það sem sneri að velferðarmálunum. Maður þekkir ekki alla málaflokka út í hörgul. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég fer rangt með en ég skildi hann þannig að hann styddi það að við fengjum álit frá hagsmunaaðilum í velferðarmálum um þetta ráðuneyti og sendum frumvarpið til umsagnar.

Hv. þingmaður vísar í þingmannanefndina og ég held að við séum öll sammála um að Alþingi hefði mátt vera sterkara, og má vera sterkara. Mér finnst það algjörlega á skjön þegar framkvæmdarvaldið setur síðan sína eigin rannsóknarnefnd í miðja vinnu þingmannanefndarinnar eins og gert hefur verið. Ég vildi fá að heyra hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni hvaða röksemdir væru fyrir því að ganga svona fram hjá þinginu í þessu máli. Við erum með þingmannanefnd sem er búin vinna mjög lengi (Forseti hringir.) og á að skila á næstu dögum.