138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlakka til að fá að heyra aðeins meira um áhyggjur þingmannsins af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, það kom eins og rúsína í pylsuendanum frekar óvænt í lokin á ræðunni. Þetta eru einhver ósjálfráð viðbrögð, held ég. Ég ætlaði samt ekki að gera það að umtalsefni.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn í þessa umræðu. Ef mig misminnir ekki er hann fyrsti fulltrúi Vinstri grænna til að taka þátt í þessari umræðu, a.m.k. núna við 2. umr. Nokkrir tóku þátt við 1. umr.

Það er gott að þessi sjónarmið koma fram og ég hef saknað þess að heyra þau. Það hefur verið mikið rætt um þessa bókun, það hefur verið mikið rætt um hvað mönnum hafi gengið til og það er ágætt að heyra það frá fyrstu hendi. Mér finnst málflutningur þingmannsins skynsamlegur og í góðu samræmi við það sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins — sem þingmaðurinn hefur áhyggjur af — höfum haldið fram í þessu máli, þ.e. að vinnubrögðin megi bæta. Ég tek undir með þingmanninum, gerði það áðan í ræðu minni og vona að þetta verði tekið inn. Ég tek undir hvatningu þingmannsins til nefndarinnar um að vinna vel á milli 2. og 3. umr., fá álit og gesti og senda málið til rækilegrar umsagnar.

Mér finnst þetta miklu hollari skoðanaskipti og líka það sem þingmaðurinn sagði, að hann frábæði sér það að jafnvel þótt hann hefði skrifað undir þessa bókun væri hann sjálfkrafa stimplaður sem andstæðingur hagræðingar í Stjórnarráðinu. Við sjálfstæðismenn höfum einnig haldið fram því sama.

Þingmaðurinn minntist aðeins á Evrópumálin. Þá langar mig í lokin að koma með eina spurningu: Telur þingmaðurinn að þetta frumvarp, eins og það er núna eftir 2. umr., (Forseti hringir.) sé partur af aðlögunarferli því sem hann nefndi hér?