138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir þingmaðurinn segja fréttir. Hann upplýsti í þessu stutta andsvari að ætlunin hefði verið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið færi í ýmis verkefni í aðlögunarferli að Evrópusambandinu en að þau hefðu verið dregin til baka. Ég minnist þess ekki að þetta hafi komið neins staðar skýrt fram. Ég þakka þingmanninum fyrir upplýsingarnar og ef ég fer rangt með leiðréttir hann mig.

Varðandi aðlögunarferlið og áhyggjur þingmannsins af atvinnuvegaráðuneytinu bið ég hann að halda sér áfram á tánum vegna þess að það er alveg skýrt og greinilegt á bls. 2 í meirihlutaáliti allsherjarnefndar að bæði iðnaðarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra munu fá uppsagnarbréf. Það er talað um að um áramótin verði hægt að láta einn og sama ráðherrann gegna þessum störfum. Það finnst mér talsverð aðlögun þannig að ég held að þingmaðurinn þurfi að halda áfram að vera á tánum í þessu máli.

Varðandi áhyggjur hans af heilindum sjálfstæðismanna um að breyta vinnubrögðum vil ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að draga úr áhyggjum þingmannsins og ég get algjörlega fullyrt sem ég stend hér að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er mjög heill í því að vilja breyta vinnubrögðum á þinginu. Við höfum séð ýmislegt fara miður á undanförnum mánuðum og árum. Við höfum gert mistök í okkar stjórnartíð og við höfum farið vel yfir þau og lært af þeim. Það sem ég hef áhyggjur af er að ríkisstjórnin virðist ekki gera það, heldur er hún frábrugðin Emil í Kattholti sem gerði alltaf skammarstrikin sín bara einu sinni en ríkisstjórnin virðist vera einbeitt í því að gera sömu skammarstrikin (Forseti hringir.) aftur og aftur.