138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[16:09]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er dálítið sérkennileg tilfinning að koma í ræðu um frumvarp til skipulagslaga í ljósi þess hvernig mál hafa gengið fram á Alþingi frá því að þetta mál kom á dagskrá. Umræðan um það var brotin upp eftir framsögu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, formanns nefndarinnar, í gær sem var góð ræða og greinargóð yfirferð um vinnu umhverfisnefndar um þetta mál.

Sú umræða var brotin upp með því að tekið var fyrir frumvarp um breytingar á Stjórnarráðinu. Þar hefur gengið á ýmsu í orðræðu þingmanna. Í mínum huga er hægt að draga umfjöllunina saman, ekki efnislega heldur áferðina á henni, þannig að í þessum málum tveimur, því sem er til umræðu nú og því sem lauk áðan, að vinnan við gerð frumvarpanna í nefndum þingsins smitar örugglega inn í salinn. Þeir sem þurftu að verja tillögurnar í umræðunni um Stjórnarráðið báru gagnrýnendum á brýn að þeir héldu því fram að tíminn væri ekki sá rétti til breytinga, allir væru vondir við sjálfstæðismenn þegar við gagnrýndum þetta og ef sjálfstæðismenn réðu mundi aldrei neitt gerast. Ég held að þetta beri vott um veikleika í rökstuðningi stjórnarliða sem tóku að sér að verja tillögurnar sem lagðar voru fram. Þess sér stað í vinnu umhverfisnefndar við frumvarp til skipulagslaga að þar ríkir mikil samstaða og eining um þær áherslur sem nefndin vill koma á framfæri. Í stað þess að hafa áhyggjur af öðrum stjórnmálaflokkum eða öflum þá einsettu umhverfisnefndarmenn sér að hafa áhyggjur af viðfangsefninu sem þeim var ætlað að sinna og búa það sem best úr garði til að það gagnaðist þeim sem þyrftu að vinna á grundvelli löggjafarinnar sem sett yrði. Í mínum huga hefur það tekist mjög vel.

Það má t.d. sjá mjög vel í nefndarálitinu sem umhverfisnefndin stendur öll að og breytingartillögunum sem fylgir að vilji nefndarinnar — og ég vil ljúka lofsorði á formann nefndarinnar fyrir verkstjórn hans — hefur staðið til að draga úr því flókna og langa tímaferli sem þessum málum hefur verið búið, herða betur að stjórnsýslu bæði sveitarfélaga og ríkis og jafnframt gera ákveðnar breytingar í þeim anda sem sveitarfélögin hafa lagt til. Í mínum huga hefur þeim sjónarmiðum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur einkum haldið á lofti, ásamt einstökum sveitarfélögum þar sem mest mæðir á, verið mætt mjög vel. Það tel ég mjög gott og er góð ávísun á framhaldið. Þetta eru þeir aðilar í stjórnkerfinu sem vinna mest á grunni þessara laga og þeir hafa gefið nefndinni umsögn sína. Það brennur mest á því fólki sem til nefndarinnar hefur komið sem gestir að framfylgja ákvæðum laganna sem Alþingi mun setja, verði frumvarpið að lögum að lokinni umræðu, sem ég ætla að verði.

Grunninn undir þessari miklu samstöðu um málið má örugglega rekja til þess að Alþingi hefur gefið sér tíma til að fara ítarlega í gegnum lagabálkinn allan. Segja má að unnið hafi verið að breytingunum, með miklum hléum, allt frá árinu 2002. Þó svo núverandi umhverfisnefnd hafi kannski ekki unnið mjög lengi er til mikil vinna, mikil þekking og gögn sem lúta að ýmsum áherslum í þessum efnum. Að sjálfsögðu er það nýtt til að gera þær breytingar sem við teljum að þurfi að gera.

Ég vil nefna sérstaklega í þessu sambandi nokkur atriði sem koma í mínum huga rækilega til móts við þau sjónarmið sem hafa verið uppi á undanförnum árum um helstu breytingar í lögum um skipulags- og byggingarmál. Þetta lýtur að styttra og einfaldara ferli, málsmeðferð eins og ég nefndi áðan. Það lýtur að gjaldtöku sveitarfélaga, sérstaklega vegna kostnaðar sem þau kunna að lenda í vegna skipulagsvinnu, og tillögu nefndarinnar um að styrkja fullnaðarafgreiðsluheimilda sveitarfélaga. Ég vil líka nefna málskotsrétt sem af hálfu sveitarfélaganna hefur verið óskað eftir, sérstaklega því sem lýtur að vinnu úrskurðarnefndar. Loks vil ég nefna verkefnisstjórn um gerð landsskipulags eða vinnu við landsskipulagsstefnu. Þetta eru allt atriði í mínum huga sem eru gríðarlega mikilvæg og ég ítreka að mér finnst hafa tekist vel til.

Þótt grunnurinn hafi verið ágætlega lagður og unnið lengi að þessu er samt ekki svo að ekki séu gerðar miklar breytingar á frumvarpinu. Það eru vissulega gerðar mjög margar breytingar í mörgum liðum. Breytingartillögurnar eru alls að held ég 29 töluliðir í ótal stafliðum einnig. Þær eru allar til bóta. Til tals hefur komið í nefndinni við lokaafgreiðslu að við gæfum okkur örstuttan tíma milli 2. og 3. umr. til að fara yfir ákveðin atriði sem standa kannski út af.

Ég vil nefna sérstaklega nokkuð sem lýtur að svæðisskipulagi og var töluvert rætt í nefndinni á síðustu metrunum. Aðstæður eru í rauninni þær að ágreiningur á milli einstakra sveitarfélaga getur stöðvað framgang svæðisskipulags. Það leiðir af þeirri einföldu staðreynd að sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags starfar í umboði íbúa sveitarfélagsins. Það er mjög flókið að búa til reglur sem skera úr ágreiningi með hlutlægum hætti á milli tveggja sveitarfélaga um gerð svæðisskipulags. Í raun má segja að það sé tæpast nema ein leið til að jafna slíkan ágreining. Það er einfaldlega að sameina viðkomandi sveitarfélög í eitt sveitarfélag eða eitt stjórnsýslustig. Það er í rauninni eina færa leiðin í stöðunni í dag miðað við óbreytt lög fremur en að búa til einhverja eina allsherjarreglu sem leysir okkur úr þeirri klemmu sem ágreiningur á milli tveggja sveitarstjórnasvæðisskipulaga skapar.

Ég vil nefna enn fremur nokkur atriði í breytingartillögum nefndarinnar og þá ætla ég að stoppa örlítið við landsskipulagið. Það er ekkert launungarmál að eins og frumvarpið var búið fyrr á tíð var þetta kannski stærsti þáttur frumvarps til skipulagslaga sem stöðvaði einkum sveitarfélögin í að vinna að framgangi þess. Nú liggur það fyrir í allnokkuð breyttum búningi en þó þannig að Samband íslenskra sveitarfélaga sem hefur verið málsvari sveitarfélaganna í þessum efnum, ásamt einstaka sveitarfélögum, er sammála þeim ákvæðum frumvarpsins sem lúta að landsskipulagi. Í vinnu umhverfisnefndar um landsskipulagið var gerð sú breytingartillaga að setja á laggirnar tímabundna verkefnisstjórn. Samkvæmt henni skipar ráðherra slíka verkefnisstjórn í samræmi við ákvæði reglugerðar sem hann setur um landsskipulagið. Ég fagna þessari tillögu sérstaklega og tel að hún geti hjálpað til við að jafna ágreining og skapa meiri sátt um verkefnið. Þegar við förum að sjá framan í það verkefni sem landsskipulagsstefnu fyrir allt landið er og ég tel mjög tímabært að vinna, þá verður ekki hjá því komist að gera málamiðlanir, fella saman ákvæði áætlana sem til eru á ýmsum sviðum ríkisins og það verður örugglega núningur mjög víða við hvort tveggja aðalskipulag og svæðisskipulag þar sem það á við.

Við sjáum þess raunar strax stað í dag hvernig svona ágreiningur getur komið upp. Ég hef undir höndum útskrift úr fundargerð skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fjallað er um breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagafjarðar og aðalskipulagi í Mýrdalshreppi. Það er mjög forvitnilegt að lesa þá bókun. Niðurstaða nefndarinnar er að Vegagerðin hafi í raun úrslitavald varðandi gildistöku aðalskipulags. Í mínum huga er þetta mjög heillandi umræðuefni og viðfangsefni að kljást við, hvernig við förum með sjálfsforræði sveitarfélaga í skipulagsmálum og hvernig við getum samræmt það vilja löggjafans til að móta heildstæða stefnu fyrir allt landið í samgöngumálum og þegar við ræðum Vegagerðina. Eins og frumvarpið liggur fyrir gerum við ráð fyrir því að landsskipulagið sé unnið þannig að sveitarfélögin lagi skipulag sitt að slíkri stefnu þó svo það hafi fullar heimildir, og það er undirstrikað hér, til að rökstyðja niðurstöðu sína og andmæli ef um það er að ræða.

Það eru hins vegar nokkur atriði sem ég vildi nefna varðandi breytingartillögurnar. Ég vek athygli á að í 5. gr. gerir umhverfisnefnd orðalagsbreytingu á hæfniskröfum þess einstaklings sem ráðinn yrði forstöðumaður Skipulagsstofnunar. Þar er gerð krafa um að viðkomandi hafi ákveðna tiltekna menntun. Verkefni forstjóra Skipulagsstofnunar er að bera ábyrgð á stjórn, rekstri og starfaskipulagi. Tilhneigingin er alltaf sú að setja líka inn menntunarkröfur. Ég er í grunninn fremur andvígur því vegna þess að ég tel að ráðherra sem í þessu tilviki sem skipar viðkomandi forstöðumann eigi einfaldlega að fara með það vald og ráða einstaklinginn á grunni þeirrar þekkingarkrafna sem ráðherra vill setja um starfið. Í mínum huga verður forstjóri Skipulagsstofnunar ekki endilega hæfari með skipulagsmenntun fremur en sérþekkingu eða sérmenntun á sviði rekstrar eða stjórnunar o.s.frv. Þetta er stór og mikil stofnun.

Ég geri ekki ágreining um þetta en vil nefna þetta sérstaklega vegna þess að þegar nefndin fór yfir frumvarp til laga um mannvirki þá fékk hún til fundar við sig ýmsar stéttir sem hver um sig gerði kröfur um það að réttindi þeirra yrðu styrkt í frumvarpinu. Ég tel að þetta sé angi af venju sem orðin er að setja menntunar- og hæfniskröfur inn í lagatexta. Að mínu mati á að reyna að koma í veg fyrir þetta og koma því fyrir með öðrum hætti. Ég tel að í umræðu um mannvirkjalögin ættum við í umhverfisnefnd að einbeita okkur að því að reyna að koma þeim málum í annan farveg en þarna er gert ráð fyrir.

Ég vil einnig nefna 20. gr. sem lýtur að gjaldtöku sveitarfélaga vegna vinnu við gerð skipulagsáætlunar. Nefndin leggur til að bæta við nýrri málsgrein sem yrði í rauninni 2. mgr. þar sem sveitarfélögin fá heimild til gjaldtöku. Ég vil strax taka fram að ég er mjög hlynntur því að þessi breyting verði gerð. Ég hef fengið ábendingar um að réttara væri að miða við það í greininni að gjaldið megi leggja á að skipulagsvinnunni lokinni í stað þess að gjaldið verði lagt á samhliða framkvæmda- eða byggingarleyfisgjaldi. Ég held að nefndin ætti að skoða hvort ekki væri rétt að gera orðalagsbreytingu hvað þetta varðar, t.d. þannig að innheimta gjaldsins sé heimil þegar sveitarstjórn hefur samþykkt viðkomandi skipulagsáætlun eða breytingu á gildandi skipulagi. Ástæðan fyrir þessum hugrenningum er einfaldlega sú að þó að skipulagsvinnan fari fram að beiðni framkvæmdaraðila er ekki öruggt að byggingar- eða framkvæmdaleyfi sé gefið út í beinu framhaldi. Framkvæmdaraðili gæti t.d. ákveðið að hverfa frá framkvæmdaáformum eða fresta þeim um einhver ár. Hagsmunir sveitarfélagsins eru hins vegar þeir að þetta tvennt sé aðskilið og gjaldið gjaldfallið þegar breytingin á aðalskipulagi hefur verið staðfest.

Síðan eru aðrar smávægilegar athugasemdir sem ég hef við 25. gr., það er fyrst og fremst um orðalag 4. og 5. mgr. þar sem er ákveðin tvítekning. Ég sakna þess líka varðandi 25. gr., sem við ræddum raunar í nefndinni, og líka í 32. gr., að ekki skuli vera tilgreindur frestur ráðherra til að afgreiða aðal- og svæðisskipulagstillögur. Ég held að við þurfum að ræða það í nefndinni sömuleiðis. Það eru ærin tilefni til að setja framkvæmdarvaldinu frest í þessum efnum því að við höfum dæmin um að stjórnsýslan hafi tekið sér óheyrilega langan tíma til að afgreiða tiltölulega einföld og saklaus mál þó svo vissulega hafi í sumum tilfellum verið full ástæða fyrir þeim drætti. Ég held að það sé góð stjórnsýsla að tilgreina fresti sem stjórnsýslan hefur til að afgreiða þau mál sem henni er ætlað að taka afstöðu til.

Ég vil í lokin undirstrika af hálfu okkar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd að við stöndum að nefndarálitinu og tillögunum sem hér eru lagðar fram. Við teljum að þær séu allar til mikilla bóta og teljum raunar að vinnan við frumvarpið hafi verið mjög góð. Eins og kemur fram í lok nefndarálitsins þá stendur eftir, sem hluti af þessum mikla frumvarpspakka, að vinna í mannvirkjalögum og lögum um brunavarnir. Það er vinna sem bíður okkar á næsta þingi. Hluti af verkinu sem hér er að ljúka er að ganga frá því. Vissulega eru mjög skiptar skoðanir um innihald þeirra laga. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum lýst því yfir að við séum reiðubúnir til að vinna að framgangi þeirra án þess að við bindum okkur við niðurstöðu. Ákveðin atriði þurfa töluvert mikla yfirlegu og skoðun áður en við getum fallist á þau. En ég vænti þess, í ljósi þeirrar vinnu sem við höfum átt í umhverfisnefnd, að um málin muni nást góð sátt á endanum og eining ríkja því að í mínum huga hefur verklag nefndarinnar skilað okkur ágætu verki í frumvarpi að skipulagslögum.