138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[16:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil hefja ræðu mína á því að taka undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni um það verklag sem við var haft í umhverfisnefnd við vinnu þessa frumvarps. Það var til fyrirmyndar, góð samstaða náðist í nefndinni milli allra nefndarmanna, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kom inn á, þvert á alla flokka og þvert á alla pólitík. Ég held að óhætt sé að taka undir það hrós sem þingmaðurinn veitti formanni nefndarinnar.

Mikil vinna liggur þarna að baki. Mér telst svo til að einhvers staðar á milli 80 og 90 umsagnaraðilar og gestir hafi heimsótt umhverfisnefnd í vinnuferlinu og mörg sjónarmið komið fram. Vissulega eru sum sjónarmiðin dálítið sértæk og snúa kannski að sérmálum einstakra stétta eða á köflum einstakra sveitarfélaga eða aðila en það er líka allt í lagi. Það er allt í lagi að umhverfisnefnd hlusti á öll sjónarmið og það er vel og ég tel að svo sem hægt er í samvinnuverkefni eins og þessu hafi verið tekið tillit til sjónarmiða og hlustað býsna vel.

Það er rétt að taka fram, eins og raunar hefur komið fram áður, að frumvarp um mannvirkjalög og brunavarnir er hluti af þessum sama pakka og þó að þetta frumvarp verði samþykkt er sennilega lagatæknilega séð ekki hægt að láta það taka gildi fyrr en hin frumvörpin hafa verið afgreidd. Ég beini því til hæstv. umhverfisráðherra að strax í upphafi næsta þings verði þau mál endurflutt þannig að nefndin geti strax hafið vinnu við að klára frágang þeirra til samþykktar á Alþingi þannig að öll þessi lagafrumvörp geti tekið gildi helst um næstu áramót.

Ég vil tæpa á nokkrum atriðum í frumvarpinu og breytingartillögunum. Mig langar fyrst að nefna þá umræðu sem fram fór í nefndinni um svæðisskipulag. Þar hefur ýmislegt verið rætt og kannski sérstaklega sá vandi sem er á svæðisskipulaginu að alla vega eins og er eru engin sérstök tæki til að höggva á þá hnúta sem kunna að myndast í svæðisskipulagsgerðinni. Þetta stafar náttúrlega af því að sveitarfélögin hafa algerlega óskorað forræði á sínu skipulagi. Það er ekki hægt að taka þann rétt af þeim og það var m.a. rætt í nefndinni að beina því til ráðuneytisins að vinna tillögur um það með hvaða hætti megi vinna svæðisskipulag og vinna úr þeim ágreiningi sem kann að myndast á milli sveitarfélaga. Ég sé að hæstv. umhverfisráðherra er genginn í salinn og ég beini því hér með til hæstv. ráðherra að þessi vinna fari í gang og verði unnin í ráðuneytinu.

Nefndin ræddi einnig mikið um gjaldtöku. Það fór fram ítarleg umræða um gjaldtöku og með hvaða hætti væri hægt að vinna úr henni. Ég tel að þær breytingartillögur sem komið hafa fram, m.a. við 20. gr., svari að mestu leyti þeim áhyggjum og athugasemdum sem komu fram um það með hvaða hætti væri, eins og menn mundu segja, „hægt að kaupa sér“ skipulag. Ég tel að bæði í nefndarálitinu og í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir sé tekið á þeim vanda sem þar getur skapast og ég held að það sé vel.

Nefndin ræddi einnig allítarlega um hugtakið hverfisskipulag og einnig um rammaskipulagsgerð. Það komu fram sjónarmið frá sveitarfélögunum um að hugtakið hverfaskipulag væri mikilvægt tæki fyrir þau. Ég tel að það sé algerlega til skoðunar og sé eitthvað sem megi vinna með áfram. Ég tel hins vegar að sú lending sem hér er, þ.e. að taka það ekki beint inn í lögin á þessu stigi málsins, sé ágæt en mikilvægt er að þessi umræða sé komin af stað og mikilvægt að þingið, ráðuneytið og sveitarfélögin í sameiningu vinni tillögur um þessa þætti, sem væri þá hægt að flytja á þinginu. Við gerum ráð fyrir að hægt verði að taka þær inn í næstu endurskoðun þessara laga, sem vel að merkja þarf ekki að vera svo ofboðslega langt undan, þ.e. ef menn eru í þeim gír.

Við ræddum líka um skipulagsmörk sveitarfélaga. Eins og staðan er núna gera lög ráð fyrir að skipulagsmörk sveitarfélaga miðist við netlög eða 150 metra eða 115 — ég man það ekki, 115 metra líklega — út frá netlögum. Við ræddum það allítarlega með hvaða hætti hægt væri að bregðast við því ef uppi væru hugmyndir eða áform um framkvæmdir og/eða mannvirki utan þess svæðis. Tökum sem dæmi vindmyllubúgarð eða eitthvað þess háttar, kræklingaeldi o.s.frv. Sú leið sem nefndin fer í breytingartillögu við 13. gr. frumvarpsins, er að sótt sé um, eins og fram kemur, með leyfi forseta:

„Því er lögð til sú breyting á 13. gr. frumvarpsins að sé framkvæmdaleyfi gefið út á svæði sem er innan 1 sjómílu frá netlögum skal leyfisveitandi leita umsagnar viðeigandi sveitarfélaga áður en leyfið er veitt.“

Ég tel að mjög mikilvægt sé að þessi klásúla komi inn í lögin því að þó að við séum kannski ekki tilbúin akkúrat á þessu stigi að víkka skipulagsmörk sveitarfélaganna út fyrir þessa 115 metra, út fyrir netlög, þá er mjög mikilvægt að Alþingi taki mið af því að á þessari öld munum við líklega fara í æ ríkari mæli að vera með bæði framkvæmdir og jafnvel mannvirki fyrir utan þessi svæði og því mikilvægt að löggjafinn horfi til þess að sveitarfélögin eigi þá að hafa eitthvað um það að segja.

Landsskipulag var einnig rætt mjög ítarlega, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kom inn á. Breytingartillaga við 10. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur til þá breytingu á ákvæðinu að telji sveitarstjórn að ekki beri að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana geri hún rökstudda grein fyrir því. Rökstuðningurinn fylgi svo með skipulagstillögu þegar hún er send Skipulagsstofnun í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins.“

Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að komið er aftur inn á það, sem ég ræddi um fyrr í ræðu minni, að skipulagsvaldið verður ekki tekið frá sveitarfélögunum. Ég þekki það frá hinum endanum, þ.e. frá sveitarfélagavængnum, að þegar frumvarp um skipulagslög kom fyrst fram á þinginu, líklega 2007 eða 2008, var einmitt rætt innan sveitarfélaganna hvort þar ætti með einhverju móti að rýra þennan rétt sveitarfélaganna. Ég held að þeim áhyggjum sveitarfélaganna sé svarað með þessu ákvæði.

Ég vil að lokum taka undir ábendingar hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um fresti sem talað er um eða öllu heldur skort á því að tala um fresti, ef við getum talað sem svo, í breytingartillögum við 25. og 32. gr. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að mikilvægt er að frestir séu tilgreindir og það sé ekki bara í lausu lofti hvenær ganga megi frá tilteknum atriðum í stjórnsýslunni, þ.e. að menn hafi ekki ótímabundinn rétt til að bregðast við.

Ég vil að lokum þakka nefndarformanni sérstaklega og nefndarmönnum fyrir gott samstarf og góða vinnu í þessu máli. Það mætti vera í fleiri málum á Alþingi að þetta góð samstaða næðist í nefndum um jafnmikilvæg mál og málaflokka eins og hér eru og ég vona að við getum haldið þessu áfram í nefndinni á milli 2. og 3. umr. ef til kemur.