138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[16:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum sem hér talaði fyrir ræðuna en ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki alveg samhengið sem hún taldi vera annars vegar á milli sóknaráætlunarinnar, sem stendur í þingsályktunartillögu þeirri sem bent var til, og hins vegar landsskipulags sem fram kemur með ákveðnum fresti og fjallar um tiltekna hluti eins og ég hef skilið landsskipulagið. Það verður landsskipulag eins og hún rakti, held ég, um ákveðna þætti í landnýtingu og landnotkun. Ég hef ekki haft fréttir af þessu og mér þætti vænt um að hv. þingmaður skýrði betur hvað átt er við með þessu. Ég hef litið á sóknaráætlunina sem hér hefur aðeins verið talað um sem pólitíska stefnumótun en landsskipulag sem vissulega pólitískar ákvarðanir en ákvarðanir af öðru tagi, í meira samráði og til lengri tíma en mér hefur sýnst að eigi við um það sem kallað er sóknaráætlun í þessari þingsályktunartillögu.