138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:00]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að okkur hv. þm. Mörð Árnason greini ekkert stórkostlega á um hvað landsskipulag er. Með orðum mínum var ég að vísa til greinargerðar með frumvarpinu.

Þar segir um 10. gr., frú forseti:

„Þá er lagt til að í landsskipulagsstefnu verði gerð grein fyrir stöðu og þróun skipulagsmála í landinu. Skort hefur á að fyrir liggi á hverjum tíma yfirsýn yfir stöðu og þróun skipulagsmála í landinu, svo sem yfirlit um dreifingu og stærð frístundabyggðasvæða og húsbygginga til mismunandi nota, um skógrækt o.fl. Lagt er til að í landsskipulagsstefnu sé tekið saman slíkt almennt yfirlit til upplýsingar fyrir almenning og stjórnvöld og til leiðbeiningar fyrir sveitarstjórnir við skipulagsgerð.“

Í mínum huga er þetta þar af leiðandi grunnur undir gerð sóknaráætlunar fyrir landið í heild og einstök sóknarsvæði landsins en landinu hefur nú verið skipt upp í átta mismunandi sóknarsvæði. Hugmyndin með sóknaráætlun er sú að þar verði fjármunum hins opinbera beint inn á sóknarfæri einstakra svæða. Þegar þetta fer saman, landnýtingaráætlun og sóknaráætlun, fjárfestingarstefna og uppbyggingaráætlun, erum við komin með býsna góð tæki til að vinna að frekari framförum í okkar góða landi.