138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:22]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mig langar, vegna ummæla síðasta hv. þingmanns um Skipulagssjóð, að segja það í fyrsta lagi að hvorki í frumvarpinu né í breytingartillögum nefndarinnar er minnst á Skipulagssjóðinn, hann er sem sé óbreyttur. Ég hygg að greinin um hann verði óbreytt ef þetta verður að lögum. Það er nú svo þegar ráðist er í mikil verk að þá er ekki hægt að sinna öllu í einu. Ég vil beina því hér í þessu andsvari til umhverfisráðherra að skoða sérstaklega málefni Skipulagssjóðs, bæði hvernig hann er skipulagður, sjóðurinn, og síðan fjármál hans sem eru með þeim eindæmum að í honum er mikið fé sem hann ræður þó ekki yfir sjálfur eða þeir sem eiga um hann að véla, sem er sérkennilegt. Það er auðvitað rétt að peningar séu á þeim stöðum þar sem þeir eiga heima.

Skipulagssjóðurinn skiptist í tvennt aðallega og fyrir því eru sögulegar ástæður sem kannski er kominn tími til að skoða að nýju. Ég ætla ekki að fara út í það á þeim stutta tíma sem ég hef hér til svara. Málefni hans eru með þeim hætti að það er auðvelt að misstíga sig þegar horft er á hann. Það er t.d. misskilningur hjá síðasta hv. þingmanni, sem ég bara virði við hann, að það sé ójafnræði í Skipulagssjóðnum milli höfuðborgar og landsbyggðar þannig að landsbyggðin fari illa út úr því. Því er einmitt öfugt farið, gjaldtaka sem til er stofnað á sjóðsins vegum fer einkum fram á höfuðborgarsvæðinu en féð rennur einkum til skipulagsmála á landsbyggðinni.