138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. umhvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þær gagnlegu umræður sem hafa verið í dag. Hér hefur verið drepið á þeim helstu álitamálum og hugðarefnum sem nefndin hefur tekið til umfjöllunar á lokaspretti vinnunnar í aðdraganda nefndarálitsins.

Það sem við höfum rætt má segja að sé tvíþætt. Það eru náttúrlega ýmis tíðindi í þessu frumvarpi, það eru stefnumótandi þættir eins og landsskipulagið og stefnumótandi þættir sem lúta að valdmörkum milli stjórnsýslustiga og ákvörðunarvaldi og úrskurðarvaldi. Allt þetta hefur nefndin yfirvegað vel og þær umræður sem skapast hafa í nefndinni um þessi atriði hafa verið mjög fræðandi og menntandi líka held ég fyrir alla nefndarmenn. Maður er snöggtum betur að sér um skipulagsmál, sveitarstjórnarstigið og valdmörk milli sveitarstjórna og ríkisins eftir þennan sprett.

Við nefndarmenn höfum líka bryddað upp á nýjum atriðum í umræðunni. Þannig er t.d., reyndar að frumkvæði Reykjavíkurborgar en með góðum undirtektum frá nefndinni, komin inn tillaga um hverfisskipulag sem hliðskipað skipulagsstig við hlið deiliskipulags. Við höfum rætt og tekið upp að fjalla um í nefndaráliti útfærslu á skipulagsmörkum sveitarfélaga utan netlaga sem er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélögin og verður æ brýnna með auknu fiskeldi og auknum framkvæmdum undan ströndum landsins sem eru af margvíslegum toga.

Þessi álitamál og ýmislegt fleira ásamt fínpússun á ýmsu munum við síðan taka betri törn á milli 2. og 3. umr. Það kemur náttúrlega til af því að tíminn hefur verið knappur en vilji nefndarinnar ríkur til að vinna þessu frumvarpi gagn. Þess vegna munum við taka það milli 2. og 3. umr. og fínpússa ýmislegt sem út af stendur, sem eru kannski ekki mjög efnislegir hlutir en má kannski kalla frágangsmál.

Það eru tvö praktísk atriði sem ég vil þó nefna, frú forseti, áður en ég segi skilið við þessa umræðu og það lýtur að breytingartillögunum sem kynntar hafa verið við frumvarpið. Það eru tvær villur í plagginu, þingskjalinu, sem hafa þegar verið lagaðar á vefútgáfu skjalsins.

Í 19. lið breytingartillagnanna, staflið a, er talað um hverfaskipulag. Þetta orð er ekki rétt lýsandi, þarna á að standa hverfisskipulag samkvæmt eðlilegum málskilningi okkar íslenskufræðinganna í nefndinni og við treystum því að við séum dómbær á það.

Síðan er villa í staflið h í 2. lið breytingartillagnanna þar sem talað er um skilgreininguna á sjálfbærri þróun og vísað í 1. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar. Þarna er svolítill misskilningur a ferðinni, þarna er ekki verið að vísa beint í Ríó-yfirlýsinguna og því fellur sá viðauki setningarinnar út. Það er hugsanlegt að við göngum frá framhaldsnefndaráliti á milli 2. og 3. umr. þannig að þetta skýrist.

Svo vil ég bara að lokum þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Við nefndarmenn höfum þakkað og strokið hvert öðru hér í þessari umræðu og það er vel. Það hefur verið ríkur samstarfsvilji í nefndinni sem vert er að þakka og ég treysti því og vona að þannig verði efnistökin áfram, bæði varðandi fráganginn á frumvarpinu sem og þeim frumvörpum sem eru óneitanlega liður í þessum skipulagspakka og eru óútkljáð enn, þ.e. mannvirkja- og brunavarnalöggjöfin.