138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er mikið áhyggjuefni hvernig frostmarkið er í þessu þjóðfélagi. Ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur heldur öllu í heljargreipum. Þessi ríkisstjórn, virðulegi forseti, á að fara frá. Hún er ónýt, (Fjmrh.: Hverjir eiga að taka við?) hún er feyskin — það tekur alltaf einhver við, hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur Sigfússon, (Gripið fram í.) það tekur alltaf einhver við. (Gripið fram í.) Og það þýðir ekkert að væla á þennan hátt (Fjmrh.: Það er ekki verið að því.) úr stól fjármálaráðherra. Ríkisstjórnin, með hæstv. fjármálaráðherra í fararbroddi, hefur svikið stöðugleikasáttmálann, svikið Helguvík, svikið framgang gagnavers, vegaframkvæmda, ríkisfjármála, skattamála, gjaldeyrishafta, vaxtamála, lífeyrismála, skuldastöðu heimilanna. Það er frost í möguleikum atvinnulífsins. Hún hefur svikið möguleikana í Atvinnutryggingasjóði, Endurhæfingarsjóði, svikið kjarasamninga og (Fjmrh.: Hvað með Landeyjahöfn?) þannig má halda áfram. (Gripið fram í.) Landeyjahöfn er hálfnað verk. Það var hægt að halda áfram með menningarhús í Reykjavík fyrir tugi milljarða en ekki hægt að ljúka verki sem verður að ljúka. Höfn sem er hönnuð fyrir ákveðið skip þarf það skip. Maður treður sér ekki í of stóra skó, hæstv. fjármálaráðherra. [Kliður í þingsal.] Göngumaður eins og hæstv. fjármálaráðherra ætti að vita það að maður treður sér ekki í of litla skó. (Gripið fram í: Já, það …) [Hlátur í þingsal.] En allir skór virðast vera of litlir fyrir hæstv. fjármálaráðherra, [Hlátur í þingsal.] alveg sama hvort þeir eru of stórir eða litlir. Það er vandamálið.

Virðulegi forseti. Þetta er ekkert gamanmál. Þetta er hrikaleg upptalning (Forseti hringir.) en hún á að vera okkur viðvörun. Þessi ríkisstjórn er feyskin og fúin.