138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir með hv. þingmönnum Gunnari Braga Sveinssyni og Birni Vali Gíslasyni um niðurstöður þessarar nefndar sem er nýbúin að skila af sér skýrslu um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er algjörlega með ólíkindum að hlusta á talsmenn Hreyfingarinnar gefa sig út fyrir að vera talsmenn þjóðarinnar. Hver getur leyft sér að tala fyrir hönd þjóðarinnar allrar úr þessum ræðustól eða koma alltaf fram eins og handhafar sanngirninnar og sannleikans, eins og hv. þingmaður gerir mjög gjarnan þegar hann stendur hér? Þetta er yfirgengilegt. (Gripið fram í: Þetta er bara rétt.)

Staðreyndin er sú að það hefur tekist breið samstaða um ákveðnar grundvallarbreytingar. Það er vel og því ber að fagna. Það voru auðvitað gríðarlega mikil vonbrigði á sínum tíma að auðlindagjaldið, sem sett var á eftir starf auðlindanefndarinnar upp úr aldamótunum, skyldi ekki verða grundvöllur að þeirri sátt sem þá var sóst eftir. En fyrir mér skiptir mestu núna að tekist hefur nokkuð víðtæk samstaða um að hreyfa málin í ákveðna átt og við skulum vera vongóð um að það geti þá skapað þá sátt sem við unnum sem mest að í kringum aldamótin.

Auðvitað er mikið verk eftir en það er ekki þannig að þeir sem hafa náð þessari breiðu samstöðu um að þoka málinu í þennan farveg vinni gegn hagsmunum þjóðarinnar eins og Hreyfingin heldur hér fram. Ég frábið mér svona málflutning á Alþingi.

Ég vil síðan segja varðandi það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom inn á og varðar afstöðu Sjálfstæðisflokksins: Ja, það er kannski von að menn spyrji sig: Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn í Icesave-málinu og varðandi samstarfið við AGS? Það getur kannski ráðið úrslitum um það hvernig þau mál þróast. Þannig var það í fyrra, ekki satt? Stóra spurningin er auðvitað þessi: Hvað ætla stjórnarflokkarnir að gera í þeim málum? Ætla þeir að beygja sig undir kröfur Breta og Hollendinga, er það það (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður er að kalla eftir? (Gripið fram í: Hver er stefnan?) Það er stóra spurningin. Stefnan okkar (Forseti hringir.) er að sjálfsögðu sú að beygja okkur ekki undir einhverja afarkosti, hvorki frá Bretum né Hollendingum. Það er (Forseti hringir.) auðvitað þannig að nú hefur þegar verið boðin (Forseti hringir.) ríkisábyrgð og líka vextir í samskiptum við Breta og Hollendinga. (Forseti hringir.) Ef það dugar ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðnum má hann fara héðan út. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)