138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða hina nýju samsteypustjórn sem hefur tekið við, þá sem er samsett úr þremur flokksbrotum og einum þingmanni til viðbótar. Ég geri ráð fyrir því að nú séu allir kettir komnir í hús og óska þessari ríkisstjórn velfarnaðar því að þjóðin byggir á því að hún vinni vel. Ég hef hins vegar ekki miklar væntingar.

Ég ætla að ræða hins vegar um það viðskiptastríð sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir gerði að umtalsefni. Hún fékk það svar frá sessunaut sínum að hún væri að sækja vatnið yfir lækinn, en ég held að hún sé að sækja lækinn yfir vatnið því að í sama þingflokki er hæstv. fjármálaráðherra sem hefur verið að gefast upp aftur og aftur og aftur á Íslandi og látið fyrir róða hagsmuni Íslendinga af einhverjum skrýtnum ástæðum sem ég skil ekki.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið misnotaður. Hann átti að koma til Íslands til að hjálpa Íslendingum en Bretar og Hollendingar hafa misnotað þann sjóð (Gripið fram í: Hvar er …?) ásamt með hryðjuverkalögunum til að kúga Íslendinga. Því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki sagt þetta svona. Þau eiga að segja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé notaður til að kúga Íslendinga. Þá skilst miklu betur hvað menn eru að gera.

Við eigum ekki að láta kúga okkur til að samþykkja Icesave, það er allt of hátt verð fyrir það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að hjálpa okkur með. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að standa í lappirnar og samþykkja ekki Icesave nema kannski sem okkar framlag til þess að halda uppi trausti á bönkum í Evrópu. Það yrði bara okkar velvilji og maður borgar að sjálfsögðu ekki vexti þegar maður er með velvild.