138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra vék að Landeyjahöfn. Það er mikil óhamingja í nálægð hæstv. fjármálaráðherra við samgöngumál Vestmannaeyja, og kemur vel á vondan. Þegar núverandi Herjólfur var byggður lét ráðherra, þá samgönguráðherra, minnka Herjólf um 10 metra til að það væri hægt að smíða hann á Akureyri. (Fjmrh.: Var hann smíðaður …?) Svo kom 1.700 millj. kr. tilboð frá Akureyri, 1.040 millj. kr. frá Noregi. Því var tekið, að sjálfsögðu. Norðmenn buðust til að smíða skipið í réttri stærð fyrir 40 millj. kr. í viðbót. Ráðherra sagði nei. (Gripið fram í: Hann býr að því …) Þetta hefur kostað ótrúlega hluti, peninga, tafir og vandræðagang, þannig að hæstv. ráðherra á að fara varlega í að tala um þessi mál.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sjálfur kveikt eld í hala sínum og snýst nú í kringum sjálfan sig og reynir að slökkva eldinn. Á hvunndagsmáli, virðulegi forseti, heitir þetta vindhalastíll. Núverandi ríkisstjórn stóð ekki við þann samning og þá ákvörðun sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði um smíði Landeyjahafnar og Herjólfs. Þeir hafa dregið lappirnar í þessu eins og nánast öllu öðru. Svo hrópar ráðherra hér: En þetta, en þetta. Hvaða vinnubrögð eru þetta eiginlega?

Þessi höfn sem er Landeyjahöfn í dag er smíðuð fyrir skip sem á að rista 3,2 metra. Núverandi Herjólfur ristir 4,4 metra, hann er allt of hár, tekur allt of mikinn vind á sig, er eins og segl í þröngri höfn og við erfiðar aðstæður. (Forseti hringir.) Þetta eru hlutirnir sem málið snýst um þegar vikið er að stöðu Landeyjahafnar í dag. (Forseti hringir.) Það verður að vinna strax að því að fá nýtt skip og tryggja (Forseti hringir.) að þetta gangi eðlilega fyrir sig, virðulegi forseti.