138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hélt satt að segja þegar við gengum hér aftur til starfa núna í september að tími landráðabrigsla úr ræðustóli Alþingis væri liðinn en ég heyri það á umræðum hér í dag að svo er ekki. Ég harma það.

Aðeins um sjávarútvegsmálin. Nú liggur fyrir niðurstaða viðræðunefndar um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og það er ljóst af þeirri skýrslu sem liggur fyrir að niðurstaðan er óljós. Hún er ekki skýr, aðallega vegna þess að sú leið sem meiri hluti nefndarinnar vísar til sem hugsanlegrar sáttaleiðar við hagsmunaaðila, samningaleiðin, er lítið útfærð og vandséð hvaða veganesti hún veitir. Þó hefur það áunnist í þessu samráði að línur hafa skýrst. Það er ljóst að það er meirihlutavilji fyrir því að stjórnarskrárbinda og treysta í sessi eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindinni. Það er meirihlutaskilningur á því að nýting aflaheimilda sé tímabundinn afnotaréttur en myndi ekki varanlegt séreignarhald á aflaheimildum og það er skilningur á því að það þarf að opna þetta kerfi, byggðatengja það og auka nýliðun.

Verkinu er hins vegar engan veginn lokið og minn skilningur er sá að það samráð sem heitið var hagsmunaaðilum í aðdraganda þessa máls sé nú að baki. Sjónarmið hagsmunaaðila hafa verið reifuð vel í þessari skýrslu, nú hvílir hins vegar á stjórnvöldum að taka pólitíska forustu í þessu máli og leiða það til lykta í sátt við íslenska þjóð. Það er verkefnið fram undan og ég heiti á ríkisstjórn Íslands að taka nú við málinu og veita því þá pólitísku forustu og sýna þann kjark sem þarf til þess að uppfylla ákvæði stjórnarsáttmálans um þau markmið sem stefnt var að með þessu verki. (Gripið fram í.)