138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:17]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Iðnaðarmálagjald var lögleitt með lögum nr. 134/1993 og varð strax umdeilt. Markmiðið var og er gott, að efla íslenskan iðnað. Gjaldið hefur að mestu runnið til Samtaka iðnaðarins sem hefur ráðstafað því til ýmissa verkefna. En eins og ég sagði hér áðan hefur það verið umdeilt frá upphafi og lögmæti þess vefengt fyrir dómstólum vegna félagafrelsisákvæðis en ekki verið úrskurðað ólögmætt fyrr en nú í vor þegar Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að gjaldið samræmdist ekki 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um funda- og félagafrelsi.

Fyrst og fremst var það umgjörðin í kringum gjaldið og ráðstöfun þess sem ekki þótti samræmast ákvæðum mannréttindasáttmálans. Markmið gjaldsins var ekki gagnrýnt en það var fyrst og fremst þrennt sem dómurinn taldi ámælisvert. Í fyrsta lagi að ekki væri nógu skýrt tekið fram í lögunum hvernig gjaldinu skuli varið, í öðru lagi að það sem innheimtist væri ekki nógu vel aðskilið frá öðrum tekjustofnum Samtaka iðnaðarins og í þriðja lagi að það vanti opinbert eftirlit með ráðstöfun gjaldsins og ekki séu nógu miklar skorður settar við því hvernig samtökin nýta það.

Ég verð að viðurkenna að þegar þetta frumvarp kom fram sló ósjálfrátt þeirri hugsun niður sem þeirri fyrstu að dómur væri fallinn og því væri best að hætta gjaldtökunni strax. En þegar íhyglin tók völdin í kollinum og málið var skoðað betur voru nokkur atriði íhuguð. Álagningin núna er fyrir síðasta ár og því ekki óeðlilegt að ljúka því álagningarári þar sem dómur féll ekki fyrr en nú á vordögum og búið er að binda gjaldið í tiltekin verkefni sem aðilar hafa gert ráð fyrir í áætlunum. Allt eru það fín verkefni á sviði fræðslu í málaflokki iðnaðarins sem frábært er að geta stutt og ekki veitir af. Gjaldið er látið renna í ríkissjóð þar sem því verður haldið afmörkuðu í skilgreind verkefni málaflokksins undir vökulu auga eftirlitsstofnana.

Þau þrjú gagnrýnisatriði sem ég nefndi hér fyrr hafa því ekki lengur gagnrýnisbroddinn í sér og hin góðu verkefni fá alla vega stuðning þetta árið og ákveðinn aðlögunartíma. Eftir þennan dóm er samt allsendis óeðlilegt að gjaldtöku verði haldið áfram eftir skýr skil nú um áramótin enda hafa Samtök iðnaðarins lítinn áhuga á að taka áfram við gjaldinu við breyttar forsendur. Ég styð því þetta mál heils hugar eins og það liggur fyrir, vel hugsað og ígrundað af iðnaðarnefnd, og fagna því að lög um iðnaðarmálagjald verði afnumin um áramótin, svo það komi skýrt fram, og tel að skoða þurfi fleiri slík gjöld þó að það sé kannski ekki verkefni iðnaðarnefndar.