138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[14:04]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um afnám laga um iðnaðarmálagjald, gjald sem á sér 35 ára sögu. Nú hefur fallið dómur hjá Mannréttindadómstól Evrópu sem kveður á um að framkvæmd þessara laga eða ráðstöfun gjaldsins til Samtaka iðnaðarins sé í bága við félagafrelsisákvæði mannréttindasáttmálans. Ég tel að iðnaðarnefnd hafi tekið hárrétta ákvörðun með því að skerpa á þessu frumvarpi og ganga skrefi lengra en þar var lagt til með því að afnema lögin frá komandi áramótum þannig að gjaldið falli niður og gjaldtöku þess verði hætt.

Ég tel reyndar að við eigum að nota tækifærið og fara í endurskoðun á öllum þessum gjaldtökufrumskógi á vegum ríkisins. Hjá framkvæmdarvaldinu er starfandi nefnd sem er að skoða það mál en ég hvet þingheim til þess að fara sömuleiðis í þá vinnu í mismunandi þingnefndum.