138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[14:05]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér fjöllum við um afnám iðnaðarmálagjalds sem ég er mjög fylgjandi og tel að iðnaðarnefnd Alþingis hafi tekið mjög röggsamlega á þessu máli. Það verður aflagt um næstu áramót og eins og fram hefur komið hefur Mannréttindadómstóll Evrópu lagst gegn framkvæmd iðnaðarmálagjalds. Í sjálfu sér er lögmæti iðnaðarmálagjaldsins ekki dregið í efa í dómi Mannréttindadómstólsins en framkvæmdin er það engu að síður. Ég hvet nefndir Alþingis til þess að skoða önnur gjöld og álögur sem komið er á hér innan þessa salar vegna þess að það er ekki sjálfgefið að ýmis gjöld séu til frambúðar. Ég horfi þar til búnaðarmálagjalds, aflagjalds og fleiri gjalda sem sett eru og lúta sömu rökum og mótrökum og þetta mál hér.