138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

orð utanríkisráðherra um þingmenn.

[10:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil bjóða hv. þm. Sigmundi Gunnlaugssyni til samkomulags um að ég lýsi því yfir úr þessum ræðustóli að mér þykir vænt um Jón Bjarnason, hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Samband mitt og þess ágæta ráðherra sem er sessunautur minn á ráðherrabekk og í ríkisstjórn dregur kannski dám af því sem mætti segja að væri erfitt hjónaband. Við erum stundum ósammála um hluti og það kemur fyrir að við rífumst. Af og til hafa þau rifrildi brotist út í fjölmiðlum, en það breytir ekki hinu að mér þykir vænt um hæstv. ráðherra sem mann og stjórnmálamann. Ég hef lýst því yfir í fjölmiðlum að ég geti algjörlega umborið þær skoðanir sem hæstv. ráðherra hefur. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki hægt. [Hlátur í þingsal.] Hann er mér algjörlega ósammála t.d. í afstöðu til Evrópusambandsins (Forseti hringir.) en hæstv. ráðherra hefur fullt frelsi til að hafa þær skoðanir og hann hefur ekki aftan að neinum manni komið vegna þess að hann hefur sagt þessar skoðanir (Forseti hringir.) frá upphafi. Það met ég. Síðan getum við tekist á í einrúmi (Forseti hringir.) eða með öðrum hætti.