138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

starfsumhverfi gagnavera.

[10:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í gær kom fram í yfirlýsingu frá samtökum fyrirtækja í gagnaversiðnaði og staðfesti þar með það sem rætt var á þingi á mánudaginn, að seinagangur um nauðsynlegar breytingar á reglugerðum um virðisaukaskatt og óskýr svör ráðamanna vegna uppbyggingar gagnavera hefur dregið mjög úr trúverðugleika Íslands og hugsanlega fælt erlenda viðskiptavini frá landinu. Þetta er ekki nýtt vandamál og þegar fjárfestingarsamningur um smíði gagnavers Verne Holdings í Reykjanesbæ var lagður fyrir þingið fyrir u.þ.b. ári lá strax fyrir að þetta væri eitt af þeim atriðum sem þyrfti að leysa til að þetta mál kæmist í höfn. Það hefur komið fram að íslensk gagnaver standa út frá samkeppni ekki jafnfætis evrópskum gagnaverum. Nýleg úttekt KPMG sem gerð var að ég held fyrir atbeina fjármálaráðherra staðfestir þetta.

Í morgun upplýsti formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Skúli Helgason, að hæstv. fjármálaráðherra hefði gefið yfirlýsingar í fyrra um að lægi það skýrt og klárt fyrir eftir þessa úttekt að hér þyrfti að gera bragarbót á lagasetningu yrði það gert til að greiða fyrir þessu.

Við höfum tekist hér á um atvinnustefnu, við höfum tekist á um mismunandi áherslur í því en ég hélt, sérstaklega eftir að ég las grein í Fréttablaðinu 31. ágúst um landris hæstv. fjármálaráðherra, að fjármálaráðherra væri því sammála að gagnaver væru atvinnukostur sem væri dýrmætur fyrir landið vegna þess að hann notaði hóflegt magn af orku og skapaði mikilvæg störf, svo ég noti orðbragð hans sjálfs. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hér hvar þetta mál standi í fjármálaráðuneytinu, hvort vilji sé til að leysa það og þá hvenær. Það er grafalvarlegt mál ef enn eitt atvinnutækifærið (Forseti hringir.) á að glutrast út úr höndum okkar fyrir klaufaskap þessarar ríkisstjórnar.