138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

starfsumhverfi gagnavera.

[10:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör. Eftir þetta eygi ég örlitla von um að þetta verði leyst en þó verð ég að segja að þessi áhersla hæstv. ráðherra á óendanlegt flækjustig þessa máls olli mér miklum vonbrigðum. Ég held að ef menn gæfu sér tíma og settu málið í forgang eins og hæstv. fjármálaráðherra hélt fram að hann væri að gera það ekki svo flókið. Þetta er svona í öðrum löndum. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að við þyrftum að taka tillit til annarra landa en það er nákvæmlega það sem fyrirtæki í þessum iðnaði fara fram á. Í yfirlýsingu samtakanna sem ég vísaði til áðan segir að til samanburðar sé mjög skýrt kveðið á um það í breskri löggjöf að engin sú kvöð sé á viðskiptavinum gagnavera að þeir stofni til fastrar starfsstöðvar í landinu, eins og verið er að fara fram á hér, og að þjónusta gagnavera sé undanþegin virðisaukaskatti þegar hún er seld fyrir utan landsteinana.

Nú vil ég gefa hæstv. fjármálaráðherra það góða ráð að kynna sér bresku löggjöfina, ganga í málið og klára þetta fyrir vikulok.