138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

auglýsingaskilti utan þéttbýlis.

[10:49]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn sem er ágætlega í takti við það sem er nákvæmlega uppi á mínum borðum þessa dagana, þ.e. þetta álit umboðsmanns Alþingis varðandi framkvæmd Umhverfisstofnunar sem byggð er á náttúruverndarlögum, 43. gr., eins og hann gerir hér grein fyrir.

Það er svo að ef stjórnvald eins og Umhverfisstofnun hefur fengið eftirlitshlutverk af þessu tagi ber henni samkvæmt álitinu jafnframt að beita ráðstöfunum beint nema lög mæli sérstaklega fyrir um annað. Það er því hárrétt sem þingmaðurinn tekur fram að þarna er ekki einungis um að ræða heimildir eins og hefur verið túlkað eða eins og framkvæmdin hefur hingað til verið hjá Umhverfisstofnun heldur ber stofnuninni að beita stjórnvaldsákvörðunum og stjórnvaldsaðgerðum með því að fara beint í þvingunarráðstafanir á borð við álagningu dagsekta eða aðrar slíkar sem eru þá byggðar á 73. gr. sömu laga.

Þegar ég fæ þessa niðurstöðu í hendur er það auðvitað svo að mér er sent álitið til upplýsinga og þetta er fyrst og fremst sent Umhverfisstofnun og henni falið að taka mið af álitinu í athöfnum sínum hér eftir, en ég hef þegar óskað eftir því að innan tveggja vikna fái ég upplýsingar um með hvaða hætti Umhverfisstofnun hyggist beita sínum praxís í kjölfarið á þessu áliti.