138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

úrræði fyrir skuldug heimili og fyrirtæki.

[10:52]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það er ljóst að þolinmæði landsmanna er á þrotum og þolinmæði einstakra stjórnarþingmanna er einnig á þrotum. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson er búinn að setja ríkisstjórnina í heild sinni á skilorð, ekki einstaka ráðherra heldur ríkisstjórnina í heild, og gefur henni nokkrar vikur til þess að grípa til ráðstafana í atvinnumálum. Þetta gerði hann í útvarpsviðtali í gær.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur stært sig af því að það hafi verið gripið til tuga aðgerða til að koma skuldugum heimilum til hjálpar. Þessi skuldugu heimili hafa því miður ekki fundið þessa hjálparhönd með þeim hætti sem hæstv. ráðherra vill vera láta.

Við höfum á síðustu dögum fengið fréttir af því að stórskuldug eignarhaldsfélög hafi náð að gera kyrrstöðusamninga við íslenska banka og þannig hafa auðmenn komist í skjól a.m.k. tímabundið. En í komandi mánuði hefjast hér hundruð eða þúsundir uppboða á íslenskum heimilum. Íslensk heimili njóta ekki kyrrstöðusamninga líkt og stórskuldug eignarhaldsfélög auðmanna. (Gripið fram í: Í ákveðnum málum.)

Ég vil því spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra: Er hann tilbúinn að lýsa því yfir að hann muni beita sér fyrir því að gerður verði kyrrstöðusamningur við íslensk heimili og íslensk fyrirtæki á komandi vikum þannig að menn fái skjól a.m.k. þangað til niðurstaða í deilumálum, er nú (Forseti hringir.) eru fyrir dómstólum, fæst? Já eða nei, hæstv. ráðherra.