138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

úrræði fyrir skuldug heimili og fyrirtæki.

[10:56]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég veit ekki hvað ég á að segja um þessa ræðu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann snýr bara út úr. Ég er að spyrja hann um það hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að gerður verði kyrrstöðusamningur, við getum kallað það þjóðarsátt ef hann vill orða það með þeim hætti, við íslensk heimili og fyrirtæki sem berjast í bökkum þannig að þau fái skjól í komandi mánuði, þannig að það verði ekki gengið að íslenskum heimilum.

Svo kemur hæstv. ráðherra og dirfist að snúa hér út úr. Ég er ekki að tala um kyrrstöðu í þeim skilningi sem hæstv. ráðherra gerir. Eina kyrrstaðan sem er og ríkir á Íslandi eru kyrrstöðusamningar eignarhaldsfélaga auðmanna og kyrrstaða sem ríkir í framkvæmd í atvinnumálum þessarar ríkisstjórnar.