138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

IPA-styrkir frá Evrópusambandinu.

[10:59]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Í drögum að áætlun Evrópusambandsins um stuðning við Ísland meðan á aðildarviðræðum stendur kemur fram að gert er ráð fyrir að 28 milljónum evra verði varið til þessa stuðnings á þeim þremur árum sem gert er ráð fyrir aðildarviðræður standi. 30–40% af þessari fjárhæð verður m.a. varið til þess að aðstoða sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins, Bændasamtökin eftir atvikum og fleiri sem áhuga hafa á að kynnast uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins og hvað það þýðir að vinna saman að uppbyggingu góðra verkefna til lands og sjávar.

Því hefur verið fleygt í fjölmiðlum og í umræðunni að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Bændasamtökin hafi ákveðið að hafna alfarið allri svokallaðri IPA-aðstoð þau þrjú ár sem aðildarviðræður munu standa. Er það rétt skilið að ráðuneytið og Bændasamtökin hafni því að taka þátt í þessari vinnu sem fram undan er, m.a. að læra að taka þátt í uppbyggingarsjóðum?