138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:23]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að fá umræðu um efnahags- og skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Það hefur komið í ljós við nýjustu greiningar á tölum um landsframleiðslu að einkaneysla er í frosti eða í miklum samdrætti. Ein af ástæðunum fyrir því er m.a. sú að skattar hafa verið hækkaðir og hér stefnir í frost í efnahagsmálum vegna algers frosts í einkaneyslu. Það er þekkt fyrirbæri að mikill samdráttur í einkaneyslu leiðir til stöðnunar og þetta er einfaldlega útkoma þess samnings sem ríkisstjórnin hefur gert við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er hefðbundin stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að helfrysta hagkerfin með þessum hætti.

Almenningur og fyrirtæki standa ekki undir sköttum eins og þeir eru í dag og hvað þá meiri sköttum. Hér verður til fljótlega, ef það er ekki þegar orðið, einhvers konar rúmenskt ástand þar sem almenningur var skattlagður inn í merg til að Rúmenía gæti greitt niður allar sínar skuldir. Það leiddi til mikilla hörmunga. Það er brýnt að ríkisstjórnin og Alþingi leiti nýrra leiða og bryddi upp á nýrri hugsun við skattlagningu, t.d. við skattlagningu fyrirtækja þar sem skiptir meginmáli að einfalda ferlið. Þessi eilífi eltingaleikur við það að reyna að skattleggja einhvern hagnað fyrirtækja er gagnslaus því að við vitum að fyrirtæki greiða einfaldlega í skatta svona að mestu leyti það sem þeim hentar hverju sinni. Þetta þarf að hugsa upp á nýtt og leysa úr viðjum öll þau störf og allan þann pening sem fer í það hjá fyrirtækjum að sjá um að bókhaldið uppfylli einhverjar gríðarlega flóknar skattareglur.

Fjármálaráðherra sjálfur er ekki öfundsverður af því starfi sem hann hefur og það er virðingarvert að taka að sér þetta starf við þessar aðstæður. (Forseti hringir.) Ég tel samt að það megi gera hlutina með öðrum hætti en stefna þessarar ríkisstjórnar er.