138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[11:43]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við hefjum 3. umr. um frumvarp til laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Hreyfingin hefur talað mikið í þessu máli og hvatt til þess að þingið gangi ekki þann veg sem það er að fara inn á og haldi áfram með nánast óbreytt kerfi þar sem nafnlaus framlög til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna verða áfram við lýði og fjárframlög frá fyrirtækjum verða áfram leyfð.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, eins og komið hefur fram, og sjálfur forseti þingsins lofaði svo mjög, fjallar mjög ítarlega um þetta mál. Með leyfi forseta segir einfaldlega: „Leita þarf leiða til að draga skýrari mörk milli fjármálalífs og stjórnmála.“ Ég spyr hvers vegna Alþingi og forseti þingsins fer ekki eftir þeim niðurstöðum.

Þrátt fyrir þessa ákveðnu niðurstöðu í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og andmæli Hreyfingarinnar í allsherjarnefnd, þar sem ég er áheyrnarfulltrúi, fékk þetta mikilvæga mál ekki efnislega umfjöllun í nefndinni og hefur ekki farið í þá efnislegu umfjöllun sem það þarf að fara í. Þetta frumvarp var ákveðið af framkvæmdastjórum stjórnmálaflokkanna í starfsnefnd sem var skipuð og þeir sjálfir eiga allt undir því að stjórnmálaflokkarnir fái nægt fé. Allsherjarnefnd hafnaði líka að bíða niðurstöðu þingmannanefndarinnar sem er að skrifa skýrslu um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og heyra hvað þeirri þingmannanefnd finnst um þessa hluti. Hér hefur fjórflokkurinn, eins og komið hefur fram, gæslufélag eigin pólitísku hagsmuna, einfaldlega hafnað því að skýrsla rannsóknarnefndarinnar hafi eitthvert vægi þegar kemur að peningum til þeirra. Það er þetta umhverfi sem býr til vantraust á Alþingi m.a. og það er alvarlegt mál ef þingið ætlar að halda þessu áfram.

Þetta frumvarp er skýrt dæmi um hvernig rótgróin samtrygging flokkakerfisins kemur í veg fyrir að samfélagið njóti góðs af niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis. Gagnsætt og óspillt lýðræði virðist ekki vera á dagskrá í þessum sal og ekki sérlega mikill áhugi á því. Peningaþörf flokkanna og þar með þingmanna flokkanna, því að þetta snýr að þeim persónulega, skiptir meira máli en opið og gegnsætt lýðræði. Menn virðast gera hvað sem er til að geta verið áfram í pólitík og ef flokkurinn skuldar fé, eins og t.d. Framsóknarflokkurinn, sem skuldar vel á annað hundrað milljónir, er það það eitt sem skiptir máli. Ég spyr: Hvað skulda hinir stjórnmálaflokkarnir á Íslandi? Hvað skulda þeir mikið og hverjum skulda þeir það? Hvers vegna liggja ekki frammi upplýsingar um þessi mál og hvers vegna eru allar þessar skuldir til staðar?

Frú forseti. Það varð talsvert upphlaup í þingsalnum í gær þegar ég nefndi tengsl útgerðarauðvaldsins, þ.e. LÍÚ, við stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn. En það samspil sem hefur viðgengist hér á landi milli fyrirtækja og stjórnmálamanna hefur rúið Alþingi trausti. Innan við 13% þjóðarinnar treysta Alþingi Íslendinga. Þetta frumvarp mun einfaldlega viðhalda því vantrausti. Með því eru þingmenn ekki bara að sýna Alþingi sem stofnun algert skeytingarleysi heldur eru þeir þar að auki að gefa almenningi langt nef. Einmitt á þeim tímum þegar þeir ættu fremur en nokkru sinni fyrr að rétta fram höndina og setja allt hvað viðkemur fjármálum stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna upp á borðið.

Frú forseti. Ef þetta frumvarp verður afgreitt óbreytt á Alþingi, sem lítur út fyrir að verði gert, mun verða til staðar sama umhverfi og samspil peninga, viðskiptaleyndar og stjórnmála og var fyrir hrunið og sem var sú eitraða blanda spillingar og leyndar sem leiddi til hrunsins. Að sama skapi mun skefjalaus sjálftaka úr almannasjóðum halda áfram og jafnræðissjónarmiða við úthlutun opinbers fjár til stjórnmálahreyfinga mun ekki verða gætt. Það er dapurlegt framhald á því Íslandi sem var fyrir hrun.