138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[11:50]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Róbert Marshall svaraði nánast spurningu minni fyrir fram og nærri því að öllu leyti. En ég vildi beina því til hans úr því að hann kemur hér upp í ræðustól, með tilliti til þeirra efasemda sem hann hefur lýst varðandi þetta frumvarp um að það gangi nægilega langt, að honum sem mörgum öðrum þingmönnum eru settar ákveðnar skorður í þessu máli af hálfu formanna flokka þeirra. Það hefur einnig komið fram í máli margra annarra þingmanna í allsherjarnefnd að þeir telja að gera þurfi meira í þessum málum. Er þá hv. þm. Róbert Marshall tilbúinn sem formaður allsherjarnefndar að beita sér fyrir því að fram fari einhvers konar allsherjarúttekt á því umhverfi sem fjármál stjórnmálaflokkanna eru í á Íslandi, að gerð verði einhvers konar heildarúttekt á því svo við fáum hugmynd um í hvaða umhverfi við erum í samanburði við nágrannalöndin? Það er ýmislegt sem kemur fram í GRECO-skýrslunni sem bendir til þess að þrátt fyrir andóf fulltrúa forsætisráðuneytisins í áðurnefndri nefnd göngum við alls ekki nógu langt til þess að vera til samræmis við það sem GRECO-nefndin leggur til. Mun hv. þingmaður þá ekki ganga til liðs með okkur í Hreyfingunni og við fáum með okkur fólk úr öðrum flokkum til þess að skoða þetta mál betur?