138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[11:54]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að halda langa ræðu enda hefur hv. eintak af þingmanni Þór Saari reifað málið vel fyrir Hreyfinguna.

Ég hef áhyggjur af nokkrum atriðum í þessu frumvarpi, sérstaklega eftir að hafa legið lengi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem segir í 8. bindi, með leyfi forseta:

„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna.“

Enn fremur segir þar í niðurlagi kaflans þar sem ályktanir eru dregnar saman og komið inn á þá lærdóma sem þurfi að draga af fortíðinni:

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Ég get tekið 100% undir öll þessi orð.

Hvað þetta frumvarp varðar er það skref í rétta átt. Það lítur vel út á pappír. Ef maður skoðar það og er tilbúinn að gefa örlítinn afslátt af ýtrustu kröfum virðist það líta ágætlega út. En ef maður kafar dýpra ofan í það kemur annað í ljós. Málið er að það þarf að setja það í samhengi við þann veruleika sem við búum við. Hefðbundin stjórnmálasamtök eru í raun og veru mengi úr mörgum breytum. Þau eru ekki bara ein eining. Innan þeirra eru t.d. stjórnmálamenn sem geta hver og einn þegið styrki, t.d. til að fara í prófkjör. Svo eru ýmis aðildarfélög. Þess vegna getur eitt fyrirtæki, sem hefur auðvitað ekki kosningarrétt eða skoðanir en á þó ef til vill einhverra hagsmuna að gæta, styrkt t.d. tíu stjórnmálamenn í prófkjöri og ýmis aðildarfélög stjórnmálamanna. Þessar upphæðir safnast saman.

Ég er þannig að ég vil yfirleitt trúa á það góða í fólki, ég vil trúa því að fólk láti ekki spillast en þetta finnst mér of mikil áhætta. Við erum hérna saman mörg komin og viljum byggja eitthvað sem við köllum nýtt Ísland. Það verður að byggja á fullkomnu trausti. Traust er brothætt.

Þetta frumvarp er ekki skothelt. Það er hægt að fara í kringum það sem kalla mætti „anda laganna“, þær hugsjónir sem virðast vera lagðar til grundvallar yfirlýstum markmiðum frumvarpsins. Ég held að ekki sé stoppað í þessi göt af ráðnum hug. Ég held að það henti flokkunum einfaldlega betur að hafa þetta svona.