138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[11:58]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni Margréti Tryggvadóttur fyrir ræðu hennar og get tekið undir margt af því sem kom fram þar. Það er sannarlega rétt sem hv. þingmaður og hv. formaður allsherjarnefndar Róbert Marshall komu inn á áðan, frumvarpið er alls ekki fullkomið. Það er engum blöðum um það að fletta að á því eru vankantar. Engu að síður, eins og hv. formaður allsherjarnefndar kom inn á, er frumvarpið eins og það er fram komið málamiðlun sem nær svona langt í þessu skrefi. Því styð ég það.

Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni Margréti Tryggvadóttur um að þarna eru alvarlegir ágallar, sérstaklega hvað varðar styrki í prófkjörum og styrki til einstaklinga. Mig langar að beina þeirri spurningu til þingmannsins hvaða leiðir hún sér til þess að leiðrétta þennan skort eða ágalla á frumvarpinu. Væri þingmaðurinn, ásamt væntanlega formanni allsherjarnefndar og allsherjarnefnd, ekki tilbúin til þess að koma að slíkri vinnu að sníða af þessa agnúa og reyna að ná samstöðu um það á hinu háa Alþingi?