138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Gagnrýnendur þessa frumvarps hafa rétt fyrir sér að því leyti að hér er ekki komin hin endanlega paradís á jörðu um fjármál stjórnmálaflokkanna. Ég tel hins vegar að hér hafi verið stigið skref í rétta átt og tek þátt í að koma á þeim umbótum sem hér um ræðir og hafna um leið þeirri samsæriskenningu sem hv. þm. Þór Saari kom fram með og tel hana tæpast viðeigandi í þessum sal í þessu efni.

Ég vil hins vegar taka fram að það er skoðun mín og fleiri félaga minna í Samfylkingunni að halda þurfi áfram að endurskoða þessi lög og hreinsa til í þessum málum, sem hollenskur blaðamaður sem ég hitti í búsáhaldabyltingunni líkti við sifjaspellskennt ástand milli viðskipta og stjórnmála á Íslandi og hefur margt fyrir sér í.