138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

stjórnlagaþing.

703. mál
[15:17]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja máls á einu atriði í frumvarpinu, þ.e. 6. gr. Ég tel hana vera mjög mikilvæga og gott að hún sé komin inn sem pósitíft ákvæði. Þetta er breytingartillaga við 2. mgr. 19. gr. laganna sem er svohljóðandi:

„Þeir sem taka sæti á stjórnlagaþingi og bera skyldur samkvæmt ráðningar- og kjarasamningum eiga rétt á leyfi frá störfum sínum þann tíma sem þeir gegna þingstörfum.“

Þetta gerir það að borgaralegri skyldu fyrir atvinnurekendur að veita starfsfólki sínu frí frá störfum til að taka þátt í stjórnlagaþinginu. Þetta er nýmæli á Íslandi. Þetta er mjög mikilvægt atriði og ég fagna því innilega að það sé komið inn í frumvarpið.