138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:51]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil óska eftir því að hv. þm. Birgir Ármannsson geri betur grein fyrir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn vill standa að undirbúningi að frumvarpi sem þessu og úrvinnslu. Öllum mátti vera ljóst að eftir að núverandi stjórnarflokkar mynduðu ríkisstjórn, og það mátti lesa í stjórnarsáttmála, að hverju ríkisstjórnin vildi stefna í þessum málum hvað varðaði Stjórnarráðið og uppskipti þar.

Á stefnuskrá þessara tveggja stjórnmálaflokka, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, hefur líka verið stefnumótun hvað varðaði áherslur á uppbyggingu meðal annars atvinnumálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis þannig að það ætti ekki að koma neinum á óvart. Í forsætisráðuneytinu var byrjað að vinna að undirbúningi uppstokkunar í þessum anda. Eftir að frumvarpið kemur inn til Alþingis er það í okkar höndum og allsherjarnefndar.

Nú er það svo að við höfum kosið að hafa verksvið hvers ráðuneytis, stjórnsýsluna, Stjórnarráðið, bundið í lögum. En það þekkist líka að skipun og verklag ráðuneyta sé í höndum ríkisstjórnar á hverjum tíma. Ég vil biðja hv. þingmann að greina frá því í svari sínu hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hefðu átt að standa að undirbúningnum fram að þessum tíma en svo segir í frumvarpinu, sem verður vonandi að lögum, hvert framhaldið eigi að verða hvað varðar samráðið.