138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem fram kom í spurningu hv. þm. Þuríðar Backman að það stendur í frumvarpinu og stendur í nefndaráliti að eftir að frumvarpið er samþykkt eigi samráðið að byrja. Það átti sér ekki stað samráð í aðdraganda þess að frumvarpið var lagt fram.

Nú vill svo til og ég vék að því í ræðu minni áðan og vék að því í ræðu við 2. umr. að í þessari ágætu handbók er að finna ákveðnar leiðbeiningar um það hvernig standa á að samráði við undirbúning lagafrumvarpa. Ekkert af því var haft í heiðri við gerð þessa lagafrumvarps.

Hér er plagg frá forsætisráðuneytinu frá 20. ágúst um lagasetningu, endurskoðaðar reglur um lagasetningu. Þar eru líka gefnar leiðbeiningar um það hvernig á að gera það. Það eru ágætar leiðbeiningar, reyndar að öllu leyti byggðar á þessari handbók frá 2007. Ekkert af því var haft í heiðri við undirbúning þessa lagafrumvarps, því miður. Ef hv. þingmaður er að spyrja hvernig við þingmenn Sjálfstæðisflokksins teljum að standa hefði átt að undirbúningi við það að leggja fram þetta frumvarp þá get ég einfaldlega vísað í þessi plögg.

Ég get líka sagt það sem ég sagði í ræðu minni við 2. umr. að ég tel að það sé nauðsynlegt þegar frumvarp af þessu tagi er lagt fram að eitthvert mat á stöðu mála í dag eigi sér stað, eitthvert mat á reynslunni, t.d. af nýlegum breytingum á Stjórnarráði, og eitthvert mat á þörfinni á breytingum og þá hvaða breytingum, og að það sé metið með einhverjum hætti hvaða áhrif líklegar breytingar hafi, bæði á Stjórnarráðið sjálft og á samfélagið í heild. Við teljum líka eðlilegt að svona frumvarp sé undirbúið í samráði við þá aðila sem að málum koma. Ekkert af þessu var gert við undirbúning þessa frumvarps. Það var bara sagt: Þetta er það sem við ætlum að gera. Þetta viljum við gera. Gerið svo vel.