138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:56]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek sannarlega undir að við eigum að vanda vel alla löggjöf og undirbúning löggjafar. Þessi undirbúningsvinna að frumvarpinu fór fram í forsætisráðuneytinu og greiningarnar fóru fram þar. Það er líka alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að sú greiningarvinna hefur ekki verið lögð fram með þessum frumvörpum. En eftir að málið hefur verið lagt fram í þinginu sjá allir sem vilja að undirbúningurinn og skipan ráðuneyta er með þeim hætti að ákveðin grundvallarhugsun er þar að baki sem byggist meðal annars á kröfum utan úr samfélaginu eins og um sameiningu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, eins og um það að efla ráðuneytin og styrkja og fækka ráðuneytum. Þetta eru undirliggjandi kröfur sem verið er að bregðast við.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það hefði verið æskilegt að greiningargögn hefðu svo komið fyrir allsherjarnefnd til að vinna með. Ég tek líka undir það að æskilegt hefði verið að umsagnarbeiðnir til fagnefndanna um álitsgerðir hefðu komið fram í vor þannig að þær hefðu haft tíma til að kalla fyrir þá gesti sem þær óskuðu eftir í stað þess að þurfa að byggja umsögn sína á þeim umsögnum sem sneru að viðkomandi fagsviði. En þannig var unnið núna og ég tel að sannarlega hefði mátt og hefði átt að vanda betur til. En beiðnin um álit nefndanna kom ekki fram fyrr en þetta seint og var brugðist við því.