138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:31]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega er þetta nýtt í umræðunni því að ég er ekki í allsherjarnefnd og hef ekki tekið þátt í umræðunni þar. Vinna við undirbúning framlagningar þessa frumvarps hefur farið fram í forsætisráðuneytinu. Ég leyfi mér að halda því fram að þar hafi menn ekki bara setið og drukkið kaffi og skrifað einhvern texta án þess að hafa einhverjar greiningar eða gögn í höndunum. Þau gögn, þær greiningar og þau álit hef ég ekki séð og var ekki í þeim vinnuhópi þannig að ég get ekki vísað til neins annars en þeirra eðlilegu vinnubragða sem ég tel að hv. þingmenn gefi sér að séu stunduð í tíð þessa forsætisráðherra sem og annarra.

Samráð í sumar, vissulega stendur það í frumvarpinu. Nefndin vann fram að þinghléi. Hér var þinghlé í rétt rúman mánuð og tekin var sú ákvörðun að boða ekki til nefndafunda í þinghléinu með tilliti til þess hvað úthald þingmanna í þingsal hafði verið mikið. Ég held að allir hafi verið fegnir því að ekki var vinnulota í þinghléinu í sumar þannig að rétt í allsherjarnefnd eins og öðrum nefndum hófst vinna í ágúst þegar nefndirnar komu aftur saman.