138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins um samráð í ræðu minni áðan, sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Þuríður Backman hafi að hluta til verið að svara, þá var ég ekki bara að vísa til þess texta sem liggur skýrt fyrir í greinargerð með frumvarpinu sjálfu og boðaður var í 1. umr. í júní. Ég var ekki eingöngu að vísa í það. Þegar við tölum um samráð erum við ekki að tala um eðlilega málsmeðferð í þingnefnd sem á að vera svo sjálfsögð að ekki þarf að nefna hana sérstaklega í greinargerð með frumvarpi.

Ég vísaði líka til þess sem sagt var þegar Stjórnarráðinu var síðast breytt sumarið 2009 þegar breytingar voru keyrðar í gegn og kvartað var yfir skorti á samráði, ekki bara pólitísku samráði heldur samráði við alla mögulega aðila úti í þjóðfélaginu. Þá var sagt: Nei, við ætlum fyrst að klára lagabreytinguna, svo förum við í samráðið. Svo þegar við spyrjum núna ári seinna hvaða samráð hafi átt sér stað eftir lagabreytinguna 2009 kemur í ljós að það var ekkert samráð. Sama sagan er endurtekin núna og sagt: Nú þurfum við að klára lagabreytinguna, það liggur svo mikið á. Við verðum að klára þessa lagabreytingu. Það stendur í stjórnarsáttmálanum. Við verðum að klára þetta.

Varðandi samráð: Jú, við erum til í samráð. Við erum mjög fylgjandi samráði. Við ætlum bara að fara í samráð þegar lagabreytingin er búin. Það er þetta sem er dálítið ótrúverðugt og það er þess vegna sem fyrirheit um samráð í framtíðinni vekja ekki ofboðslega mikið traust, alla vega ekki í mínum huga, þegar loforð um samráð hafa verið svikin trekk í trekk. Skýr loforð sem t.d. komu fram 2009 í greinargerð með frumvarpi, í umræðum í þinginu, í umræðum í þingnefnd — allt svikið. Það er það sem ég hef áhyggjur af núna.