138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki farið yfir þetta í löngu máli enda er þetta síðasta ræðan sem ég get haldið um þetta mál og er það í raun og veru ótrúlegt hvað málið hefur fengið litla umfjöllun, bæði hér í þingsalnum og einnig innan nefnda. Við höfum lítið rætt grundvallaratriðin í þessu. Þó var það þannig að hv. þm. Þuríður Backman spurði áðan í andsvari hvort það væri skynsamlegt að málum væri þannig fyrir komið að ríkisstjórnir hvers tíma gætu ráðið því hvernig ráðuneytin væru uppbyggð og hvaða málaflokkar heyrðu undir þau.

Þetta er athyglisverð hugmynd og gæti verið skynsamleg. Það gerist hins vegar ekki nema menn fari í heildarendurskoðun og það gerist ekki nema menn taki tillit til ábendinga í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem bent er á ýmsa þætti, ýmsa vankanta á stjórnsýslunni, sem hefur svo sem verið bent á áður, t.d. það að skýra þurfi skilin á milli pólitískra aðila og aðstoðarmanna. Að vísu er lagt til í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að tækifæri ráðherra til að ráða slíka aðila verði aukin, og síðan er það hinn faglegi þáttur. Á sama hátt er mjög mikilvægt fyrir okkur að skerpa bæði skil og ábyrgð á milli ráðuneyta og á milli ráðuneyta og undirstofnana.

Þetta eru mjög spennandi verkefni sem hefði verið mjög æskilegt að vinna skipulega og vel að. Mér segir svo hugur um að ef menn ynnu þetta saman hér í þinginu mundi myndast býsna góð sátt um það mál. En þá þyrftu menn auðvitað, eins og komið hefur fram í öllum þeim skýrslum og úttektum sem um þetta hafa fjallað, að vanda til vinnunnar og gera úttekt á þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru þannig að menn geri ekki mistök eins og allt of algengt hefur verið.

Það er athyglisvert að sjá að við erum að fara í þessa hluti núna. Tvö stærstu og umfangsmestu ráðuneytin eru sameinuð og að baki liggur sú röksemdafærsla að sum ráðuneytin séu of lítil, sem er auðvitað mjög sérkennilegt ef menn trúa því. Ég held að það sé alveg rétt að sum ráðuneytin séu of lítil, það eru um 20 manns í tveimur minnstu ráðuneytunum og það segir sig sjálft að það eru hvorki stórar né sterkar stjórnsýslueiningar. Minnstu ráðuneytin eru hins vegar ekki sameinuð heldur þau stærstu. Við vitum það og ég vil trúa því að hv. stjórnarþingmönnum líði flestum illa yfir því að það samráð sem var lofað og sett skriflega inn í frumvarp, þau fögru orð sem fallið hafa, allar þær úttektir og skýrslur sem liggja fyrir sem segja að menn eigi að vinna þetta með allt öðrum hætti, handbækur o.s.frv. hafi brugðist. Þá spyr maður sig: Bíddu, en af hverju eru menn samt sem áður að keyra þetta með þessum hraða og ganga þannig fram af meiri hlutanum að það er hægt að segja við hann hvar og hvenær sem er að þegar kemur að því að styrkja stöðu þingsins og vanda vel til verka þá muni það ekki standast neina skoðun?

Ég hef því miður verið að velta þessu mikið fyrir mér og ég ætla að setja ákveðinn spádóm fram, ég vona að spáin gangi ekki eftir en er ansi hræddur um að hún geri það. Þá er ég að vísa til þess hvað hefur gerst að undanförnu í ráðningarmálum og þess hvernig menn hafa komið sínum aðilum að innan stjórnkerfisins. Ég tel að þær áætlanir sem liggja fyrir miði að því að halda áfram á þeirri braut í þeim geirum sem undir þessi tvö ráðuneyti heyra. Ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér og að ekkert slíkt sé í bígerð en við skulum sjá hvað verður. Ég hef áhyggjur af því að þessum kafla í sögu ríkisstjórnarinnar með vandræðamál í kringum ráðningar sé ekki lokið. Ég er ansi hræddur um að hann sé rétt að byrja og að við munum sjá allra handa æfingar í kjölfar þess að þetta (Forseti hringir.) frumvarp verður að lögum.