138. löggjafarþing — 156. fundur,  9. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:14]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Varðandi breytingartillögurnar sem liggja frammi um þetta mál þá eru þær flestar til mikilla bóta. Eins og fram kom í máli framsögumanns eru þetta að stórum hluta ákveðnar orðalagsbreytingar þó svo gerð sé ein grundvallarbreyting á tillögu nefndarinnar frá 2. umr. sem lýtur að svæðisskipulagi. Þar er og hefur verið stærsti ágreiningsflöturinn á milli ríkis og sveitarfélaga varðandi frumvarpið sem hér liggur fyrir, þ.e. atriðin sem lúta að landsskipulagi. Leiðin sem lögð er til er hugsuð fyrst og fremst til þess að reyna að draga þessa aðila nær hvor öðrum og reyna að mynda betri grunn til þess að sátt náist um verkefnið sem allir aðilar virðast þokkalega sammála um, þ.e. að búa til stefnu sem tekur til skipulags alls landsins.

Ég tel ástæðu að nefna það hér að á fundi umhverfisnefndar í gærmorgun með fulltrúum ráðuneytisins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga var rætt um innihald þess sem kallað er landsskipulagsstefna til að útskýra betur í hverju það fælist. Skilningur manna virðist nokkuð á reiki með það. Ekki meðal þeirra sem hafa sökkt sér ofan í þetta frá upphafi og fylgt því eftir frá grunni heldur tel ég að skilningur á þessu sé ekki mikill, hvorki hjá stjórnsýslunni né sveitarfélögunum.

Að minni beiðni tók sambandið saman hvort menn væru frekar sammála um það sem ekki fælist í landsskipulagsstefnunni. Ég sé ástæðu til þess að nefna þetta því mér finnst það áríðandi. Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem hefur unnið ágætlega að málinu, lýtur breytingin einkum að því sem ekki felst í landsskipulagsstefnu.

Fyrst ber að tiltaka að þeir segja að þetta sé ekki eiginleg skipulagsáætlun heldur stefna og henni verði ekki beitt til að knýja fram tiltekna framkvæmd innan skipulagsins eða banna hana. Sem dæmi er nefnd í þessu sambandi staðsetning flugvalla eða virkjana. Sveitarstjórnir skuli taka mið af stefnunni en eru ekki bundnar af henni sem stefnu í landnotkun nema annað leiði af lögum. Einnig hafa þeir ákveðna sýn til skipulags miðhálendisins sem verði áfram á forræði sveitarfélaga. Um það atriði eru deildar meiningar sem þarf örugglega að skýra betur, auk þess þarf að skerpa skilningi aðila þegar vinna hefst við gerð stefnunnar.

Það var þokkalegur samhljómur á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins á fundinum um landsskipulagsstefnuna. Ég tel ástæðu til þess að nefna þetta hérna og ítreka sjónarmiðin sem þarna komu fram. Þetta lýtur að þessu gamla deiluefni, ef maður getur sagt sem svo, verkaskiptingu og umboði ríkis og sveitarfélaga á sviði skipulagsmála. Tilhneigingin hefur oftar en ekki verið sú að ríkið seilist meira inn á forræði og svið sveitarfélaga varðandi skipulagsmál. Sem dæmi má nefna 34. gr. í frumvarpinu. Síðasta málsgreinin lýtur að því þegar tvö sveitarfélög eða fleiri komast ekki að samkomulagi um ágreining við aðalskipulagsgerð. Í frumvarpinu er lagt til að úrskurðarvaldið færist frá sveitarfélögum yfir til ráðherra. Nefndin náði saman um mildara orðalag, ef maður getur sagt svo, sem ber að fanga. Þetta tengist máli í umhverfisnefndinni sem tengist smíði frumvarpsins og lýtur að meðferð ágreinings um svæðisskipulag. Þarna erum við á jarðsprengjusvæði í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Í nefndarálitinu var lagt til að umhverfisráðuneytið fyndi farveg fyrir ágreininginn um svæðisskipulagið. Það er eðlilegt að ætlast til þess að ágreiningurinn sem kann að koma upp varðandi gerð aðalskipulagsins, mörk á milli sveitarfélaga og ágreiningur verði tekið inn í ferlið sem hæstv. ráðherra mun stýra í framhaldi samþykktar frumvarpsins.

Það var ekki fyrr en á fundi nefndarinnar í hádeginu í dag að við náðum að reka hornin í ákvæðið. Við fórum þá í gegnum umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi 34. gr. þar sem andmæli þeirra komu skýrt fram.

Ég vil ekki hafa ýkja mörg orð um þetta. Þetta hefur verið ágæt og gefandi vinna. Það hefur margt verið gert til bóta á frumvarpinu. Engu að síður held ég að það sé skilningur nefndarmanna að frumvarpið sem væntanlega verður að lögum innihaldi ákvæði sem þarf að taka til endurskoðunar. Eins og hv. framsögumaður nefndi hér áðan eru ýmis nýmæli í frumvarpinu og ég tel rétt að innan skamms verði metið hvernig þau gangi og hvort þörf sé á einhverjum breytingum.