138. löggjafarþing — 156. fundur,  9. sept. 2010.

stjórnlagaþing.

703. mál
[17:31]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar rétt aðeins til þess að ítreka það sem fram kom í framsöguræðu minni með því frumvarpi sem hér er flutt. Við bregðumst hér við ákveðnum ábendingum sem koma frá færustu sérfræðingum okkar í framkvæmd kosninga. Við viljum freista þess að hafa það kerfi einfalt sem við munum nýta okkur við kosningarnar svo allir skilji hvernig kjósa á á stjórnlagaþingið og svo einfalt verði að telja. Þetta er einsdæmi í sögu landsins, fyrstu kosningarnar sem fram fara af þessu tagi. Til þess að þingmenn átti sig á því hvað við er að etja er hér sýnishorn af atkvæðaseðli eins og hann mundi líta út ef framkvæmdin yrði eins og að var stefnt. Hér er einungis um að ræða tæplega 200 nöfn á þessum seðli og algjörlega óvíst hversu margir frambjóðendurnir verða. Við því erum við að bregðast og á þessum seðli er letrið allt of smátt og sá kassi sem merkja á í allt of lítill. Það þarf ekkert að velta því mikið meira fyrir sér hvort það sé réttmætt að gera þessar breytingar.

Með þeim breytingum sem gerðar eru er hverjum frambjóðanda úthlutað sérstöku númeri sem hann getur síðan kappkostað að láta kjósendur sína leggja á minnið og merkja við þegar inn í kjörklefann er komið. Það er sannfæring mín að framkvæmdin muni heppnast vel með þeim hætti. Það er mikil eftirvænting eftir þessum kosningum og mikilvægt að vanda mjög til við framkvæmd þessa sögulega atburðar.