138. löggjafarþing — 156. fundur,  9. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ef svo fer sem horfir um þessa atkvæðagreiðslu má segja í fornum stíl að við höfum mikinn öldung að velli lagðan þar sem eru breytingar á skipulagslögunum þó að eftir séu smærri atriði í tveimur öðrum lagabálkum. Ég vil óska mönnum almennt til hamingju með það. Af nýmælum í þessum lögum og breytingum er sérstaklega að geta landsskipulagsstefnunnar sem nú er komin á eða yrði komin á ef þessi lög verða samþykkt hér á þinginu. Hún er, að ég held, mikið framfaraspor í skipulags- og samfélagsmálum okkar og á eftir að bæta verulega skipulag landsins, náttúruvernd, umhverfi og atvinnulíf.