138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ein mínúta nægir mér ekki til að veita hv. þm. Bjarna Benediktssyni svör mín við því. Þetta er langt og mikið álitamál. Það er að mörgu að huga og ég hygg að þetta kalli á sérstaka umræðu sem er þó fyrir utan þessa. Engu að síður finnst mér, án þess að ég leggi fram tillögu, að þetta fyrirkomulag eigi að koma til endurskoðunar. Við eigum að taka hreinskiptna umræðu um hvort þetta kerfi gangi eða ekki.

Fræðimenn á þessu sviði sögðu okkur að lögin sem samin voru 1963 hefðu verið ótrúlega góð á sínum tíma og stæðust ákaflega vel tímans tönn en þó verður samt að íhuga þetta. Í lögunum um landsdóm og lögunum um ráðherraábyrgð er gerð ákaflega góð grein fyrir því af hverju þetta fyrirkomulag er svona. Og þau rök eru færð fram af Ólafi Jóhannessyni. (Forseti hringir.) Þetta var tímamótalöggjöf sem stenst enn þá tímans tönn.