138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:26]
Horfa

Frsm. þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég áleit það hlutverk mitt í inngangsræðunni að kynna til sögunnar þetta verk, þessa skýrslu. Ég fór yfir hana almennt, fór yfir vinnulag og annað slíkt. Ég las upp brotabrot úr einhverjum köflum sem eru niðurstaða nefndarinnar og ég vænti þess að nefndarmenn muni síðan í nefndinni útlista þessar hugmyndir. Þetta er svo stórt mál, hv. þm. Bjarni Benediktsson, að ég get ekki — það eru mínar takmarkanir að geta ekki svarað því á einni mínútu. Ég vona að hv. þingmaður virði það við mig en ég mun væntanlega koma hér upp í seinni umræðu, ég á víst 20 mínútur, og þá kemur hugsanlega fram meira af minni pólitísku greiningu á stöðunni.